Fréttatíminn

image description
04.05 2012

Ólöf Nordal er sjálfstæð nútímakona

„Hann er kominn með annað heimili og er með fasta búsetu í Genf,“ segir Ólöf Nordal um manninn sinn, Tómas Má Sigurðsson, sem í ársbyrjun flutti til Sviss til þess að reka Alcoa álrisann í Evrópu.

„Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég frétti af þessu starfstilboði í byrjun desember og svo var þetta frágengið milli jóla og nýárs. Þetta gerðist á augnabliki. Hann gekk frá samningi og fór út 2. janúar. Allan janúarmánuð spurði ég mig: Hvað gerðist? Fram að þessu hefur þetta gengið vel. Hann kemur heim eins mikið og hann getur. Hann ferðast mikið til Bandaríkjanna og stoppar þá við. Svo hef ég farið út til hans með krakkana,“ segir Ólöf en viðurkennir að enn sé lítil reynsla komin á þessa fjarbúð þeirra hjóna, því ólíkt fyrri fjarbúðum er hún nú á milli landa. Eitt er þó víst, svona fyrirkomulag krefst trausts.

„Já, mikils trausts. Skilyrðislauss trausts. Ég held að það sé ekkert sjálfgefið að bæði hjónin stundi svona [ábyrgðarmikil] störf eins og við höfum gert og svona lengi. Ég held að eina leiðin til að það sé hægt sé að það ríki fullkomið traust.“

Ólöf er 46 ára gömul, lögfræðingur, fjögurra barna móðir og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Þótt börnin séu ekki heima þessa stundina er ekki ró í húsinu. Hún stendur í framkvæmdum. Úti á svölum athafnar smiður sig með tilheyrandi látum. Þau hjónin eru smátt og smátt að gera upp húsið, sem byggt er í lok sjötta áratugarins og þau keyptu góðærisárið 2007. Það er nokkrum húsnúmerum frá æskuheimili hennar í Laugardalnum.

Þrátt fyrir hamarshöggin er Ólöf pollróleg, berfætt og dregur annan fótinn undir sig þar sem við sitjum við borðstofuborðið. Fyrir framan hana spriklar vatn í glasi. Hún er nýkomin úr ræktinni og á leið í þingsal þar sem hún tilheyrir minnihlutanum. Nú gefst smá glæta til að skyggnast inn í persónulegt líf hennar.

„Ha, erfitt að vera ein? Nei, nei, nei, það var enginn að tala um það. Enda erum við Tommi búin að vera svo hundlengi saman,“ segir Ólöf og hlær.

„Við kynntumst hér í Reykjavík. Ung. Við vorum í Háskólanum. Ég lærði lögfræði en hann var í verkfræðideildinni. Við erum samt bæði MR-ingar. Hann er reyndar yngri en ég. En ég þekkti stráka í kringum hann. Ég held að það hafi verið þannig að við sáumst,“ segir hún þegar hún lýsir fyrstu kynnunum. Hún viðurkennir að hún hafi lítið viljað kannast við hann í menntaskóla. „Þá var hann í þriðja bekk en ég í fimmta. Ég man þó eftir honum sko, hann var nokkuð áberandi,“ segir hún.

„Ég var aftur á móti svo seinþroska. Ég var sein til í þessum strákamálum; allt of mjó, með of langar lappir og ólöguleg stelpa. Ég get alla vega ekki talið upp einhverja tuttugu kærasta og verð nú bara að viðurkenna að þegar ég var í MR stóðu strákarnir ekki í röðum. Ég veit ekkert af hverju það var. Kannski var það því eldri systur mínar sögðu að það væri rosalega mikilvægt að verða ástfangin; mætti alls ekki hleypa strákum neitt fyrr en maður væri ástfanginn. Ég beið bara eftir því og það gerðist ekkert fyrr en ég hitti Tómas, þá varð ég ástfangin,“ segir Ólöf hispurslaust – en kannski þar sem hún á tvær ungar dömur sem gætu lesið viðtalið.

„Hann var sjálfur 21 og ég 22 ára gömul. Ég tel að hann myndi segja að hann hafi náð í mig, en ég að mér hafi tekist að leggja snörurnar fyrir hann. Við erum mjög samhent. Við erum búin að ganga í gegnum okkar fullorðinsár saman. Eins og gengur hjá fólki er stundum erfiðara, stundum auðveldara. En við höfum alltaf litið á lífið sem okkar sameiginlega verkefni.“

Eftir háskólaárin fluttu þau til Bandaríkjanna þar sem Tómas fór í framhaldsnám og Ólöf eignaðist börn. „Ég átti eftir að klára ritgerðina og var í því að eignast fyrri hlutann af krakkaskaranum. Við áttum ekki neitt en nutum lífsins í námi, eins og á að gera. Skólinn var í litlum bæ nálægt New York og okkur fannst mikið ævintýri að fara þangað og upplifa allan heiminn.“

Þrjú börn á rúmum fjórum árum, sem nú eru á aldrinum sextán til tvítugs. „Þau fæddust öll í beit,“ segir Ólöf sem var heima þessi ár en ókyrrðist mjög við fæðingu þriðja barnsins og heimkomuna til Íslands. „Það voru þrjú ár frá því að ég kláraði lögfræðina og ég óttaðist að þekkingin væri að verða úrelt. Ég sá fyrir mér að þetta væri bara komið í hönk. Það þýddi því ekkert að segja mér að vera heima.“

Ólöf lýsir nokkrum áhyggjum sínum eftir að hún byrjaði að vinna úti af því að standa sig ekki sem móðir. „Og reyndar höfðum við bæði áhyggjur af því að vera ekki að standa okkur; að við ynnum of mikið. Kona sem vann með mér í samgönguráðuneytinu, Sæunn – mikil vinkona mín – sagði þá við mig: Ólöf hættu að hugsa um allt draslið heima. Hættu, það fer ekki neitt. Hún sagði við mig: Ólöf, ég hef aldrei heyrt að uppvaskinu hafi verið stolið. Þetta er eitt besta lífsmottó sem ég hef heyrt. Maður verður að slaka á,“ segir hún.

„Við reyndar tókum þá ákvörðun strax að við myndum þiggja þá hjálp sem við fyndum. Það er ein af ástæðum þess að þetta hefur gengið hjá okkur. Við höfum verið með Au Pair stelpur, sjö eða átta, í gegnum tíðina. Við vorum með konu í mörg ár sem sótti fyrir okkur krakkana og fór með þá heim. Við höfum valið að láta heimilisverkin aldrei stoppa okkur og vera ekki taugaveikluð yfir þeim. Við vitum að þar gengur allt vel.“

Spurð hvort hún hafi verið gagnrýnd fyrir þetta. „Ég hef bara aldrei velt því fyrir mér. Ég viðurkenni að fyrst þegar ég fór að vinna frá þriðja barninu og það bara fjögurra mánaða, horfði fólk á mig og spurði mig af hverju? Ég ætti í stað þess að njóta þess að vera með börnin. Sem er rétt – ég myndi sjálf segja þetta við unga konu. En ég hélt að ég myndi aldrei fá vinnu. Þá vorum við að koma að utan og mér fannst ég aldrei hafa unnið neitt og hugsaði: Ég verð að byrja að vinna eitthvað,“ segir hún um það þegar hún réð sig sem deildarstjóra í samgönguráðinu. Þar var hún í þrjú ár.

Segja má að Austurland sé mikill örlagavaldur í lífi þeirra hjóna. Austurlandið fleytti Tómasi úr landi. Austfirðingar komu þessari Reykjavíkurskvísu á þing. „Ég flutti austur 2004,“ segir hún, þá ólétt af sínu fjórða barni og í vinnu hjá Landsvirkjun. Hún sagði starfi sínu lausu og var tilbúin að binda á sig svuntuna og vera heima.

„Tommi hefur alltaf hvatt mig áfram og er dyggasti stuðningsmaður minn undir sólinni. Hann hlustar ekki á að það sé annað í spilunum fyrir mig. Hann hefur aldrei, aldrei beðið mig um að hægja á mér eða neitt út af sér. Aldrei. Þegar við fórum austur og ég sagði honum að ég ætlaði að vera heimavinnandi svaraði hann: Já, já, en hann tók ekki mark á því. Það hefur alltaf verið þannig. Kannski er það vegna þess að við höfum orðið reynslunni ríkari og þroskuðumst saman. Ég myndi segja að á vissan hátt sé hann meiri jafnréttissinni en börnin sem við erum að ala upp í þessu havaríi sem er á heimilinu,“ segir Ólöf og hlær.

„Í það minnsta sagði maðurinn minn að það myndi aldrei ganga að ég yrði heima – og það hefði aldrei gengið. Ég fékk því að heyra; Já, já, þetta er mjög góð hugmynd hjá þér. Við skulum sjá til. Svo æxlaðist það þannig að við vorum ekki búin að eignast barnið áður en ég var búin að koma mér í aðra vinnu og hún var í Reykjavík. Ég vann að austan og fór tvisvar í viku suður að meðaltali.“ Ólöf varð framkvæmdastjóri Orkusölunnar.

Ólöf segir ólíkt að flytja út á land miðað við úr landi. „Í útlöndum ertu gestur og upplifir aðra siði. En þegar þú flytur á milli landshluta ertu auðvitað heima hjá þér. Þú þarft að koma þér inn í samfélag sem er íslenskt, en er samt sem áður ekki þitt samfélag. Við vorum aðkomumenn. Við þurftum að kynnast fólki og það þurfti að skilja að við höfðum áhuga á að vera þarna og koma okkur fyrir,“ segir hún.

„Kannski er það af því að við sinntum svona störfum sem fólk átti alveg eins von á því að við myndum fara aftur. Þá kemur þetta: Hversu mikið á maður að hafa fyrir því að bindast vinaböndum við fólk sem fer? Það er oft talað um að víða úti á landi séu samfélög lokuð. Ég held að hluti skýringarinnar sé að þetta er fólkið sem á heima þarna. Þetta er þeirra svæði. Þegar landsbyggðin segir að það vanti skilning á aðstæðum þess held ég að það sé vegna þess að við [hin] erum alltaf að koma í heimsókn. Komum á sumrin og höfum það huggulegt. Við setjum okkur sjaldnast inn í líf úti á landi.“

En Ólöfu tókst að fá heimamenn til að treysta sér. Í það minnsta svo vel að þeir kusu hana á þing sem fulltrúa sinn. „Já það var merkilegt. Ég hefði aldrei trúað því að ég yrði landsbyggðarþingmaður fyrirfram. Ég velti því fyrir mér hvernig ég ætti að sannfæra fólk um að kjósa mig þegar upp kom að ég færi í prófkjör? Ég hugsaði að ég yrði bara að segja það eins og er: Þið ættuð að kjósa mig af því að ég er Reykvíkingur. Ég þekki þankaganginn þar. Það er ekki vont fyrir ykkur að hafa þingmann sem þekkir þann hluta. Ég var aldrei að villa á mér heimildir með það, enda á ég engar ættir að rekja austur,“ skýrir hún mál sitt. „En hann á það og það skiptir máli.“

Ólöf segir þingmennskuna fyrir Austfirðinga hafa verið ómetanlegan tími. „Það var merkilegt að fá þetta tækifæri. Það breytti viðhorfi mínu og gerði mig víðsýnni; já, stækkaði sjóndeildarhringinn. Eftir situr mikill skilningur á málefnum landsbyggðarinnar sem fylgir mér alltaf.“

Á meðan Ólöf var á þingi fyrir Austfirðinga var hún með íbúð á Reynimel. „Ég var hér yfir vikuna og kom heim um helgar. Þegar við keyptum húsið [við Laugardal] sagði ég við hann að ég gæti ekki verið án barnanna og ein í bænum. Mér fannst það ómögulegt. Þegar starfið breyttist hjá honum og hann var settur yfir allt Ísland var skrifstofa hans eins hér fyrir sunnan og fyrir austan. Ég pressaði því á að fjölskyldan flytti suður. Ég gat ekki verið fljúgandi nokkrum sinnum í viku, með smákrakkann einan heima. Ég viðurkenni það. Ég gat þetta ekki. Á þessum tíma snerist þetta við hjá okkur Tomma. Hann fór að fljúga austur og mér fannst það bara allt í lagi,“ segir hún glettin í kaldhæðninni.

„Ég segi eins og er. Mér er alveg sama hvað hver segir – í það minnsta gat ég ekki og get ekki verið á barnanna – en þetta hefur eitthvað með mitt móðureðli að gera. Kannski gengur maður þá bara yfir pabbann, og þá geri ég það bara!“

Ólöf fann óánægju yfir því að hún flytti aftur suður. „Það var erfitt fyrir mig í kjördæminu á ákveðinn hátt. En það kom að kosningum og ég ákvað að skipta um kjördæmi. Mér fannst það eðlilegt skref út af þeim breytingum sem urðu hjá okkur fjölskyldunni. Ég veit að það voru ekki allir ánægðir með það í gamla kjördæminu en ég tók þá ákvörðun og ég vissi ekkert hvernig mér myndi ganga. Það er ekki gefið að fólk nái öruggu þingsæti þegar fólk fer á milli kjördæma. Ég hugsa að það hafi gengið af því að ég var Reykvíkingur, rétt eins og þegar ég var fyrir austan og bauð mig fram sem Reykvíking.“

En það er einmitt það sem er. Ólöf er Reykvíkingur langt aftur í ættir. Næstyngst barna Jóhannesar Nordal, fyrrum seðlabankastjóra, og Dóru Nordal, píanóleikara og húsmóður. Hún er næstyngst fimm systra og bróður. Fjölskyldan hefur sett sitt mark á landið. Metnaður kemur upp í hugann.

„Já, við systkinin vorum alltaf hvött áfram og gengið út frá því að við myndum læra eins mikið og við gætum. Móðuramma mín sagði alltaf við okkur systurnar að við yrðum að standa á eigin fótum. Við mættum ekki láta einhvern mann sjá fyrir okkur,“ segir hún spurð um metnaðinn.

„Þessi ráðlegging hennar hefur alltaf fylgt mér. Ég verð að standa á eigin fótum og geta unnið fyrir mér sjálf. Það er eitt að vinna fyrir sér og taka eitt verkefnið á fætur öðru. Ég hef viljað vanda mig við það sem ég geri og takast á við erfið verkefni. Ég hef aldrei spáð í hvernig metnaður það sé. Mér finnst það bara eðlilegt. Mig langar til að gera það sem ég geri eins vel og ég get. Þannig hefur hvert starfið fylgt öðru. Ég held að það sé það sem við höfum allar systurnar reynt að gera.“

Og sem þingmaður vill hún vanda sig þótt hún viðurkenni að helstu markmið og málefni hafi verið lögð til hliðar fyrir það verkefni að koma landinu út úr erfiðleikunum. „Öll þessi markmiðasetning hefur riðlast við ósköpin sem dundu á,“ segir hún og að helsti draumurinn á þingi sé að sjá á bak bölsýninni.

„Við þurfum að passa að umræðan sé ekki svona hatrömm eins og verið hefur. Þetta er ekki hægt. Við getum ekki haldið svona áfram. Ég held þetta sé ekki hægt í milljónalöndum. Ég held þetta sé alls ekki hægt í svona litlu landi,“ segir hún. „Við erum föst. Það er mjög vont.“ En er flokkurinn tilbúinn fyrir framtíðina? Er búið að gera upp fortíðina?

„Hvað fellst í því að gera upp fortíðina? Það hafa orðið þingkosningar. Menn hafa farið í gegnum prófkjör, marga landsfundi. Formaður hefur ítrekað endurnýjað umboð sitt og sótt það til kjósenda. En flokkurinn verður alltaf dæmdur af verkum sínum. Á meðan hann er í stjórnarandstöðu reynir öðruvísi á en flokksmenn eru vanir. Það eitt og sér er erfitt,“ segir hún.

„Sjálfstæðisflokkurinn vill koma góðum hlutum til leiðar. Ef honum tekst það þegar hann kemst í ríkisstjórn mun hann fá það traust sem honum ber. Ég geri ríka kröfu um það að við stöndum við það sem við lofum. Ef við Íslendingar myndum gera það myndi okkur vegna miklu, miklu betur.“

Já, pólitísk umræða á heimilinu. Ólöf viðurkennir að hún vilji gjarna sleppa slíku og fá sína hvíld. „Ég er með strák í háskólanum. Ég tala við hann og hann vill tala við okkur – og við mig um pólitík. Ég var lengi að fatta það: Hvað þarftu ekki að fara inn í herbergi? Allt í einu er búið að opna hurðina að herberginu. Unga fólkið mitt sest við borðstofuborðið og maður er krafinn um svör. Og biðji ég um frið frá þjóðfélagsumræðunni er mér bent á að ég þurfi að standa fyrir máli mínu,“ segir Ólöf og brosir.

Eins og fyrr sagði er Ólöf aftur komin í þá stöðu að hún hefur börnin og Tómas er með annan fótinn á heimilinu. „Lífið gengur í bylgjum. Maður fer í gegnum tímabil. Það er eins og á ákveðnu árabili stokkist hlutirnir upp, það verða breytingar. Það hefur verið þannig hjá okkur og okkur finnst gaman að takast á við nýja hluti. Þegar að þetta kom upp að flytja út á land ákváðum við að gera það og þegar tækifæri gafst til að vinna úti greip hann það,“ segir hún.

„Lífið er ein breyting. Maður sér það á börnunum sínum. Lífið er á ferðinni. Það er því ekki hægt að ákveða að vera á sömu skrifstofunni starfsævina á enda,“ segir hún og því er ekki úr vegi að spyrja hvort hún stefni út á eftir Tómasi? Hvort hún vilji nú stokka spilin að nýju.

„Við erum með börn í skóla og ég sé engar breytingar á því,“ svarar Ólöf diplómatískt, brosir og drekkur síðasta sódavatnssopann úr glasinu. Fullkomið svar stjórnmálamannsins...


gag@frettatiminn.is 

Til baka

Kaupstaður