Nýverið samþykkti meirihluti fræðsluráðs Hafnarfjarðar að leikskólar bæjarins yrðu opnir allt árið og sumarlokanir framvegis úr sögunni frá sumrinu 2021. Ákvörðun þessi var tekin á fundi ráðsins 12. febrúar sl. og þá þegar var ljóst að breytingin legðist illa í starfsmenn leikskóla og leikskólastjóra sem mótmæltu áformum þessum kröftuglega. Á þeim fundi lagði fulltrúi Miðflokksins fram þá tillögu að málinu yrði frestað og málið yrði unnið í sátt við þá er málið varðar. Þá var óskað eftir því að starfshópur yrði stofnaður sem myndi gefa hlutaðeigandi kost á því að fara yfir málið og leita lausna.
Niðurstaðan varð sú að tillagan um sumaropnun leikskóla var samþykkt með 3 atkvæðum meirihlutans en minnihluti ráðsins sat hjá. Þá var samþykkt að stofnaður yrði starfshópur sem átti að taka á málinu eftir að það var afgreitt í fræðsluráði.
Ekki er búið að reikna út kostnað við þessar breytingar þannig að það veit enginn hvað þær kosta. Ekki er vitað hversu marga þarf að ráða inn á leikskólana til afleysinga þegar fastráðið starfsfólk tekur sitt sumarleyfi en á fundi ráðsins kom upp sú hugmynd að ráða unglinga frá vinnuskólanum inná leikskólana til afleysinga. Ekkert er vitað um hvaða áhrif þessi breyting hefur á faglega starfsemi leikskólanna til lengri eða skemmri tíma. Ekkert samráð var við sérfræðingana í þessu máli; starfsfólk leikskólanna og leikskólastjóra. Sem sagt, ákvörðunin var tekin án þess að nauðsynlegra upplýsinga hafi verið aflað og því er spurt á hvaða grunni þessi ákvörðun var tekin?
Á fundi fræðsluráðs 26. febrúar var lagður fram listi með undirskriftum 390 starfsmanna leikskólanna sem mótmæla harðlega þessari ákvörðun. Það eru rúmlega 80% starfsfólk leikskólanna í Hafnarfirði. Á máli fulltrúa leikskólastigsins í ráðinu sem og í samfélaginu okkar hér í Hafnarfirði hefur mátt heyra mikla reiði og undrun vegna þessarar ákvörðunar. Nefndar hafa verið fjöldauppsagnir og fleira í þeim dúr sem vonandi verður ekki að veruleika og meirihluti fræðsluráðs bregðist við og dragi ákvörðun sína til baka.
Mál þetta allt og málatilbúnaður er á skjön við þá stefnu Miðflokksins að halda í fagfólk skólanna og vinna að bættum starfsaðstæðum í leikskólum bæjarins.
Fulltrúar Miðflokksins í fræðsluráði standa heilshugar að baki starfsfólki leikskólanna í þessu máli, of mikið er undir eða sátt um fyrsta skólastigið í bænum okkar.
Hólmfríður Þórisdóttir,
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir,
fulltrúar Miðflokksins í fræðsluráði Hafnarfjarðar.
Greinin birtist jafnframt í Fjarðarfréttum