Forystu SA finnst óviðeigandi að verka og láglaunafólk taki málin í sínar eigin vinnuhendur og berjist fyrir betri kjörum. Við í Eflingu erum ekki á þeirri skoðun. Okkur finnst óviðeigandi að samið sé um auknar hækkanir handa hálaunahópum Alþýðusambandsins á meðan að fulltrúum verkafólks er sýnd óvirðing við samningsborðið og kröfum þess fólks sem að heldur samfélaginu gangandi með vinnuafli sínu ekki svarað með neinu nema útúrsnúningi og rugli.
Þess vegna hefjum við undibúning verkfalla. Við erum ekki eins og þeir sem láta sér nægja að hóta kannski aðgerðum einhverntímann eftir að aðgerðahópar hafi mögulega komist að einhverskonar niðurstöðu. Við látum verkin tala, nú líkt og ávallt.
Stjórn og samninganefnd Eflingar standa þétt saman. Og við eigum frábæra félaga allsstaðar í okkar magnaða félagi. Í gær kom kjörstjórn Eflingar saman og í dag verður verkfallsatkvæðagreiðslan auglýst. Á mánudag fundar stjórn vinnudeilusjóðs Eflingar til að taka ákvörðun um upphæð verkfallsstyrks, og kl. 16 sama dag hefst atkvæðagreiðsla um verkföll hjá félagsfólki Eflingar sem að starfa við ræstingar.
Ég er þess fullviss að verkfallsboðunin verður samþykkt og þá leggja 900 manneskjur, að stærstum meirihluta konur, niður störf á hádegi þann 18. mars, í ótímabundnu verkfalli. Þá fær íslensk yfirstétt tækifæri til að horfast í augu við það á hverra vinnuafli öll verðmætasköpun og þjónusta höfuðborgar landsins hvílir.
Ég hef sagt þá áður og segi það á ný: Þeir dagar eru liðnir að forysta Eflingar, stærsta verkalýðsfélags verkafólk á Íslandi, samþykki að vinnuaflinu sé haldið niðri til að tryggja hagsmuni annara hópa. Þeim kafla í sögu félagsins lauk árið 2018 og hann verður ekki opnaður á ný. Það er í raun óskiljanlegt að fólk skuli ekki vera tilbúið til að horfast í augu við þessa augljósu staðreynd. En þegar sú staða kemur upp bregst Efling hratt og örugglega við, í þeirri vissu að félagsfólk Eflingar, ómissandi fólk að öllu leiti, getur og vill berjast, sameinað, til að ná raunverulegum árangri.
Ég er stolt af félagsfólki Eflingar. Þau eru djörf og þau eru dugleg, og þau láta ekki íslenska yfirsétt segja sér fyrir verkum.
Áfram Efling, alla leið!