Fleiri myndu kjósa Sósíalistaflokkinn en Vinstri græna ef gengið yrði til kosninga í dag, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Vinstri græn mælast með stuðning 3,5 prósenta kjósenda en Sósíalistar 4,7 prósenta.
Samfylkingin mælist stærst með 27,6% fylgi, sem er eilítið meira en í síðasta mánuði. Næstur kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 17,2% og tapar rúmu prósentustigi á milli mánaða.
Miðflokkurinn nýtur stuðnings 14,6% landsmanna og hefur þrefaldað fylgi sitt frá því í kosningunum 2021. Um 8,8% myndu kjósa Viðreisn, og 8,6% Flokk fólksins. Píratar mælast með 7,8% fylgi og tapa einu prósentustigi milli mánaða. Stuðningur við Framsóknarflokkinn er 7,2% sem er aukning frá síðasta mánuði.
Sósíalistaflokkurinn eykur fylgi sitt milli mánaða en mælist þó undir fimm prósenta mörkunum sem þarf til að fá úthlutuðum jöfnunarþingmanni. Það myndi því að líkindum ekki duga flokknum til að fá þingmann kjörinn. Vinstri græn reka síðan lestina, en aðeins þrjú og hálft prósent kjósenda segjast myndu greiða flokknum atkvæði.
Stuðningur við ríkisstjórnina er á svipuðu reki og verið hefur síðustu mánuði en 27% segjast styðja hana. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 28%.