Í fimm mánuði í vetur verður sérstök vetraropnun í Kaffistofu Samhjálpar fyrir einstaklinga sem hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir. Þetta er annar veturinn sem ráðist er í slíka opnun en hún þótti reynast vel í fyrra. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í vetraropnuninni, líkt og í fyrra.
Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær hafa undirritað samning við Samhjálp vegna sérstakrar vetraropnunar.
Vetraropnunin verður í gildi frá 1. nóvember og út marsmánuð. Það er tveimur mánuðum lengri opnunartími en í fyrra, þegar opið var frá 1. desember og út febrúarmánuð.
Sveitarfélögin greiða Samhjálp 2,5 milljónir á mánuði í fimm mánuði fyrir þjónustuna og greiða þau í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags.
Hressing, stuðningur og dægrastytting í boði
Kaffistofa Samhjálpar er ætluð fólki sem glímir við fátækt af mismunandi ástæðum og þau sem eru í neyð. Venjulegur opnunartími þar er alla daga ársins milli klukkan 10 og 14. Þar er alltaf í boði morgunverður, kaffi, súpa og heitur matur daglega.
Vetraropnunin felst í því að Kaffistofan verður opin heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir á milli 14 og 16.30 en á þeim tíma eru neyðarskýlin sem rekin eru í Reykjavík lokuð. Á lengdum opnunartíma verður boðið upp á kaffi, mjólk, djús, heita súpu og brauðmeti ásamt meðlæti. Auk þess er hugmyndin sú að bjóða eitthvað til dægrastyttingar fyrir gesti kaffistofunnar, svo sem kvikmyndasýningar og vonandi tónlistaratriði á aðventunni. Það verður gert án endurgjalds af hálfu Samhjálpar.
Sérstök áhersla verður lögð á að skapa starfsfólki Samhjálpar tækifæri til að eiga samtöl við gesti en könnun sem gerð var þeirra á meðal í sýndi að gestir óskuðu eftir því. Þá mun starfsfólk frá Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar (VoR-teymi) mæta á kaffistofuna og veita gestum stuðning eftir þörfum. Jafnframt er gert ráð fyrir að starfsfólk málaflokks umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Reykjavíkurborg veita starfsfólki kaffistofu Samhjálpar og gestum stuðning.
Ánægð með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Í fyrrahaust samþykkti velferðarráð Reykjavíkurborgar að ganga til samstarfs við Samhjálp um lengri opnunartíma sérstaklega ætlaða gestum Samhjálpar sem nýta neyðarskýli og hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir. Hún þótti ganga vel í fyrra og því var leitað til Samhjálpar um nýjan samning í vetur. Á þeim tíma var óskað eftir því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tækju þátt í kostnaði vegna vetraropnunarinnar sem þau samþykktu öll, líkt og nú.
„Við erum ánægð með að Kaffistofa Samhjálpar sé tilbúin að vinna að þessu mikilvæga verkefni með okkur aftur og ekki síður er ég ánægð með að hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taki aftur þátt í þessari vinnu enda er fólkið sem sækir til að mynda neyðarskýli borgarinnar alls staðar að og því eðlilegt að við vinnum saman að stuðningi við það,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Gera mánaðarlega þjónustukönnun meðal gesta
Talning og skráning gesta mun fara fram daglega, sem þykir mikilvægt svo mæla megi notkun og greina frá kyngreindum tölulegum upplýsingum um þá sem nýta þjónustuna.
„Við erum ánægð með að Kaffistofa Samhjálpar sé tilbúin að vinna að þessu mikilvæga verkefni með okkur aftur.“
Þá mun starfsfólk Kaffistofunnar gera þjónustukönnun meðal notenda einu sinni í mánuði auk þess að settur verður upp kassi sem þjónustuþegar geta skilað nafnlausum bréfmiðum í, um hvað þeim finnst vera gott við þjónustuna og hvað megi betur fara.
Jafnframt mun Samhjálp deila með sveitarfélögunum ópersónugreinanalegri tölfræði hvers mánaðar, um hversu margir nýttu sér þjónustuna, skipt eftir kyni og sveitarfélögum. Í lok samningstímans skilar Samhjálp svo heildartölum ásamt stuttri samantekt um gang verkefnisins.