Útlit er fyrir austan hvassviðri og jafnvel storm með suðurströndinni frá því í nótt og fram yfir hádegi á morgun. Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal má reikna með snörpum hviðum 30-40 m/s og í hámarki á milli kl. 6 og 12. Eins verða hviður í Öræfum við Sandfell og Hof um svipað leyti. Segir í viðvörun Vegagerðarinnar.
Veðurhorfur á landinu
Austan og norðaustan 8-15 m/s. Talsverð rigning á Austfjörðum og á Suðausturlandi, en annars væta með köflum. Hiti 8 til 15 stig. Dregur úr vætu í kvöld. Þokuloft við austurströndina.
Austan 8-15 og væta með köflum á morgun, en 13-20 m/s syðst á landinu fram eftir degi. Yfirleitt þurrt á Vesturlandi og í innsveitum norðanlands. Hiti víða 9 til 18 stig, hlýjast vestantil. Spá gerð: 02.08.2024 18:00. Gildir til: 04.08.2024 00:00.
Gul viðvörun vegna veðurs: Suðurland, Suðausturland og Miðhálendi
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Norðaustan og austan 5-15 og rigning með köflum suðaustanlands og norðantil á Vestfjörðum, en annars skýjað með köflum og þurrt að mestu. Þokuloft við norður- austurströndina. Hiti 8 til 20 stig, svalast í þokulofti. Hvessir við suðausturströndina um kvöldið og bætir í úrkomu suðaustantil.
Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Norðaustan 10-18, hvassast við suðausturströndina fram eftir morgni en lægir síðan sunnan- og austanlands. Hvessir norðvestantil síðdegis. Víða rigning, talsverð úrkoma um tíma á Austfjörðum. Hiti 8 til 16 stig, mildast sunnan heiða.
Á þriðjudag:
Norðaustlæg átt og rigning suðaustantil, en annars úrkomulítið. Heldur hlýnandi.
Á miðvikudag:
Norðlæg átt. Súld eða rigning og svalt í veðri, bjart með köflum og mildara syðra, en stöku síðdegisskúrir.