Ögmundur Jónasson heldur úti bloggsíðunni Ögmundur.is og kennir þar margra grasa og hann sem reyndur stjórnmálamaður hefur marga fjöruna sopið í pólitíkinni s.l. áratugi. Hér að neðan eru þankar hans um áramót: Hver gætir bróður síns?
,,Í Mósebók segir frá því þegar Kain hafði drepið Abel bróður sinn til að komast yfir hjarðir hans, allt að undirlagi Satans, þá hafi Drottinn komið að máli við Kain og viljað vita hvað hefði hent, hvar Abel væri, því “ blóð bróður þíns hrópar til mín úr jörðunni”. Kain mælti þá: “Það veit ég ekki, á ég að gæta bróður míns?”
Þessu hafa flest trúarbrögð veraldarinnar og boðberar siðfræði almennt, svarað játandi. Við eigum að gæta bróður okkar. Málið vandast hins vegar þegar spurt er um deili á bróður okkar og systur. Hver þau eru, systkini okkar, sem við eigum að gæta.
Við allsnægtaborð ríka heimsins er fjallað af hlýhug um einhverja allt aðra bræður og systur en gert er á sorphaugum ríkja fjórða heimsins þar sem snauðasta fólk veraldarinnar leitar að einhverju ætilegu eða nýtilegu. Og varla hugsa foreldrarnir, sem hafa misst börnin sín í drónaárásum í Jemen, hlýlega til þeirra sem bræðra sinna og systra, sem stjórnað hafa morðtólunum.
En þá er að hinu að hyggja, líkt og í dæmisögu Mósebókar, að gott og illt tekst á, ekki bara manna á milli heldur einnig innra með einum og sama manninum.
En ætli að það sé ekki svo, að eftir að hin siðferðlega krafa hefur verið vakin í vitund okkar, sé það hvers og eins að finna út hver það er sem helst þarfnast umhyggju og hjálpar, hver sé þurfandi bróðirinn sem þurfi að bregða skildi yfir. Og þótt því séu takmörk sett hve langt umburðarlyndi skuli ná, er engu að síður þörf á að horfa til allra vídda í mannlegri tilveru þegar dómar eru upp kveðnir.
Heimspekingar upplýsingar 18. aldar svo og nytjahyggjumenn hinnar 19. aldar, sem að mínu mati lögðu grunninn að því besta í siðmenningu okkar; þeir sem lögðu hefnigirni og refsihyggju fyrri alda að velli og mörkuðu betrunarbrautina, horfðu alltaf til þess að illt mætti gera gott og slæmt betra. Hið gagnstæða er þá einnig augljóst, að með því að leggja allt á versta veg, ætla öllum alltaf illt, þá má gæra slæmt verra og jafnvel gott að illu.
Senn er liðið ár mikilla siðferðilegra sviptivinda á okkar Ísalandi. Stórir dómar hafa verið upp kveðnir og enn á eftir að fella dóma.
Alþingismaður, sem ásamt félögum sínum gerðist orðljótur í ölæði, er hrópaður út í ystu myrkur, þess krafist að hann stigi aldrei fæti aftur inn á þing, “enda ekki hægt að bjóða okkur að deila vinnustað með slíkum mönnum.” Og síðan er því bætt við að þakka skuli fyrir að illt innrætið hafi verið opinberað, það hafi þó komið fram við skál á Klausturbar. Samfélaginu öllu hafi í kjölfarið, fyrir tilstilli fjölmiðla, verið opnuð sýn á innri mann og menn.
Síðan líða dagarnir og það hendir einhver okkar að fletta í gömlum blöðum. Og viti menn, á daginn kemur að sami maður og nú er sagður hvergi mega vera, gaf fyrr á tíð bróður sínum nýra sitt og hafði aldrei hátt um það.
Þá er spurt, var þar ekki á ferð “innri maður”? Og enn er leitað svara, hvor er betri orðvari en jafnframt sérgóði maðurinn, sem engum gaf nýra sitt, eða hinn sem gætti bróður síns með framangreindum hætti?
Hver ætlar að setjast í dómarasæti? Á hverjum þarf að biðjast afsökunar úr æðstu stólum þings og þjóðar? Og hver telur sig þess umkominn?
Þegar allt kemur til alls kann að vera nokkuð til í því sem segir í Grettissögu, að satt sé sem mælt er,“að öl er annar maður…”
Var það kannski “innri maðurinn” sem gaf nýrað en “annar maður” sem illu heilli reif kjaft og meiddi fólk – illa. Þann mann má laga. Svo kenna bestu andans menn.
Við manninn, hvort sem hann er sá innri eða hinn ytri, ber að leggja rækt og þá líka sýna umburðarlyndi; veita hinu virðingarverða í manneskjunni stuðning jafnvel þótt í henni kunni að finnast brotalamir. Þær er að finna í okkur flestum.
Þau eru hins vegar ekki á hverju strái sem sýnt hafa í verki að þau gæti bróður síns eða systur. Þetta mætti íhuga áður en slegið er í bjöllu til að biðjast afsökunar á þeim hinum sömu.
Þegar mönnum verður á, misstíga sig eða meiða aðra, þá er það þeirra sjálfra að horfast í augu við orð sín og gjörðir og eftir atvikum biðjast afsökunar.
Það er svo aðeins þeirra sem finna til af völdum annarra að veita fyrirgefningu ef þá á annað borð er um slíkt að ræða.“ Segir Ögmundur Jónasson í grein sinni.