Fólk í Miðflokknum skemmti sér konunglega á árlegu þorrablóti flokksins sem fram fór í sal Blaðamannafélagsins við Síðumúla. Veislustjóri var þingmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson.
Formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem mættur var ásamt eiginkonu sinni Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur brá á leik í ræðu sinni á blótinu. Mætti hann með útprentuð blöð límd saman þar sem var að finna slóðir á allar fréttir sem skrifaðar hafa verið um Klaustursmálið svonefnda. En þess má geta að einhver nefndi að RÚV ætti líklega metið með um 800 birtingar.
Sigmundur Davíð sem að oft hefur verið á milli tannana á fólki sagði m.a. frá því að sagan um það að hann væri geðveikur hefði fengið svo góðan byr undir báða vængi. Að í sögunni væri nú sagt að hann væri tilbúinn að leggjast inn á geðdeild Landspítalans, svo framarlega sem spítalinn væri á Vífilsstöðum eða Keldnaholti. Þannig gæti hann slegið tvær flugur í einu höggi og hugsanlegt væri að fólk rjúki strax til og byggi Landspítala á þeim stöðum – í þeim tilgangi að koma honum á geðdeild. Gestir skemmtu sér vel yfir gríni Sigmundar Davíðs og létt var yfir öllum gestum og góður andi í salnum.
Þröngt mega sáttir sitja en aðsóknin í miða á blótið var slík að strax varð uppselt og myndaðist langur biðlisti eftir miðum. Borðum var þjappað betur saman og fólk látið sitja á endum borða til þess að koma sem flestum fyrir.
Það er alveg ljóst að flokkurinn þarf á miklu stærra rými að halda fyrir þorrablótið að ári.
Veðurfræðingurinn Sigurður Þ. Ragnarsson lét sig ekki vanta en Sigurður (Stormur) leiddi lista flokksins í Hafnarfirði í kosningunum í fyrra og var hann mættur á þorrablótið með Hólmfríði Þórisdóttur eiginkonu sinni. Þingmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson mætti með unnustu sinni, Sunnu Gunnars Marteinsdóttur. Birgir Þórarinsson þingmaður var í góðum félagsskap.
Góð mæting var á þorrablótið og þingmenn og trúnaðarmenn flokksins létu sig ekki vanta frekar en hinn almenni félagsmaður. Veislugestir voru ánægðir með matinn sem að sló í gegn og stemmingin á blótinu var upp á tíu.
Snorri Þorvaldsson tók ljósmyndir af gestum þorrablótsins:
https://www.facebook.com/snorri.porvaldsson/posts/10214775224470507