Árlegt samráð við Bandaríkin um öryggis- og varnarmál fór fram í gær. Tvíhliða samstarf ríkjanna, samvinna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, öryggispólitísk málefni, norðurslóðir, loftslags-, mannréttinda- og lýðræðismál voru til umræðu á fundinum sem haldinn var gegnum fjarfundabúnað vegna heimsfaraldursins.
Á fundinum var þess minnst að í ár eru sjötíu liðin frá undirritun varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Varnarsamningurinn er ásamt aðildinni að Atlantshafsbandalaginu hornsteinn öryggis og varna Íslands. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, leiddi viðræðurnar fyrir Íslands hönd. Í íslensku sendinefndinni voru fulltrúar þjóðaröryggisráðs, forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands, auk utanríkisráðuneytins.
Fyrir bandarísku sendinefndinni fóru Michael Murphy, varaaðstoðarráðherra Evrópumála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, og Andrew Winternitz, yfirmaður Evrópu- og Atlantshafsbandalagsmála í varnarmálaráðuneytinu.
Sameiginleg yfirlýsing fundarins er hér á ensku.