Mér er algjörlega misboðið núna!
Mér stendur ekki á sama hvernig sumt fólk er að hegða sér núna þegar heimsfaraldur gengur yfir öll lönd og þar á meðal Ísland að sjálfsögðu. Það er verið að reyna að kenna okkur að virða tveggja metra millibil á milli fólks og það gengur misvel og stundum mjög illa! Ég hef eins og aðrir upplifað bæði fólk sem virðir þessa reglu og svo hina sem gera það ekki, í verslunum. Sem betur fer eru flestir að standa sig en alls ekki allir. Þessi prósent sem gera það ekki, eru þeir sem eru að valda þeim smitum sem eru í gangi í dag!
Í dag var ég að versla í einni af matvöruverslunum landsins, nafn hennar skiptir ekki öllu máli enda svipað ástand víða. En ég var staddur inn í ávaxtadeild einnar verslunar þar sem ávextirnir eru kældir niður til að halda ferskleika sínum.
Gott og vel, frábært að hugsa vel um vöruna en kuldinn þarna inni er akkúrat kjörhiti fyrir kórónaveiruna sem er að leggja heimsbyggðina í rúst og kosta mannslíf á hverjum degi.
Ég var ekki akkúrat að hugsa um það þegar ég var í innkaupaferð en mér brá vægast sagt ótrúlega mikið að sjá eldri mann sem var í sömu deild, með poka fullan af vínberum og var að taka þau upp úr pokanum og virða fyrir sér með berum höndum. Hann velti vínberjunum á milli handa sér eins og hann væri að grandskoða þau og gramsaði vel og lengi í pokanum. Mér hraus hugur að sjá aðfararnir vægast sagt. En þetta átti bara eftir að versna. Því allt í einu fer hann að stinga upp í sig vínberjum úr pokanum, fer svo aftur með sömu fingur ofan í anna poka, nær þar í fleiri vínber og stingur upp í sig.
Ég sagði við hann að það væri nú ekki í lagi! Við það strunsaði hann í burtu án þess svo mikið að svara mér. En ef þú lest þetta hér, þá veit ég það núna að þú ert fáviti en ég vona að þú sért ekki líka kóviti, því þá fer illa fyrir þeim sem kaupa pokana sem þú skildir eftir í grænmetisdeildinni.
Sem betur fer er flest fólk varkárt en ekki allir, ég vill taka það sérstaklega fram að allur aðbúnaður og merkingar voru í góðu lagi í þessari matvöruverslun og nóg af spritti og hönskum sem þessi einstaklingur ákvað að nota ekki. En það væri kannski hyggilegra að selja svona varning í lokuðum pokum því verslanir og neytendur eru varnarlausir annars gagnvart svona fólki.
Pössum upp á okkur og fjölskylduna og aðra, Covid-19 er samfélagsmein, góða helgi!