Hópslysaáætlun var virkjuð
Kl.19:38 í kvöld barst Neyðarlínunni tilkynning um alvarlegt umferðarslys á Hnífsdalsvegi. Tvær fólksbifreiðar, sem ekið var úr sitt hvorri áttinni, rákust saman. Hópslysaáætlun var virkjuð, sem felur í sér boðun fjölmargra viðbragðsaðila á norðanverðum Vestfjörðum.
Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum var virkjuð, sem og samhæfingamiðstöð almanna í Skógarhlíð í Reykjavík. Í bifreiðunum tveimur voru alls 5 manns, sem allir voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar. Kallað var eftir tveimur sjúkraflugvélum frá Akureyri til Ísafjarðar. Þær fluttu þrjá af þeim fimm sem um ræðir til Reykjavíkur til frekari aðhlynningar. Hinir er tveir verða áfram til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Auk lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tók fjöldi björgunarsveitafólks, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningsmenn, lögreglumenn og fulltrúar frá Rauða krossi Íslands þátt í aðgerðinni, eða um 50 manns. Viðbragðsaðilar hafa lokið störfum. Aðstæður á vettvangi og verkefnið í heild var krefjandi en allir viðbragðsaðilar stóðu sig ákaflega vel. Er þeim þökkuð metnaðarfull vinna. Starfsfólk RKÍ var strax kallað til og hefur veitt aðstandendum hinna slösuðu andlegan stuðning.
Rannsókn á tildrögum slyssins er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Umræða