Reglugerð sem heimilar greiðslu sýningarstyrkja til framleiðenda kvikmynda á íslensku hefur verið samþykkt og undirrituð af mennta- og menningarmálaráðherra. Heimilt verður að veita sérstaka sýningarstyrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi í hlutfalli við heildarandvirði seldra aðgöngumiða að sýningum á viðkomandi kvikmynd.
„Íslenskar kvikmyndir skipa mikilvægan sess í menningu okkar og þessi nýja reglugerð fylgir eftir þörfum breytingum á kvikmyndalögum sem samþykktar voru síðasta vor,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, „heimilt er að styrkirnir nemi allt að 20% af heildarsölutekjum kvikmynda á íslensku eftir því sem fjárveitingar leyfa.“
Kvikmyndamiðstöð auglýsir eftir umsóknum um sýningarstyrki en þær skulu vera í nafni framleiðslufyrirtækis sem bar ábyrgð á gerð og fjármögnun viðkomandi myndar og skal framleiðslufyrirtækið hafa staðfestu á Íslandi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.