Hræðilegt er að horfa upp á hvernig farið hefur verið með gamla miðbæinn í Reykjavík á undanförnum árum
Upp úr aldamótum voru uppi miklar hugmyndir um að rífa sem mest af því gamla sem gerir miðbæinn sérstakan og troða þar inn eins mörgum rúmmetrum af steinsteypu, stáli og gleri og mögulegt væri. Áformin náðu hámarki rétt fyrir bankahrunið en á sama tíma náðum ég og margir aðrir talsverðum árangri í að berjast fyrir verndun þessarar minnstu sögulegu höfuðborgarbyggðar í Evrópu.
Mér þótti alltaf undarlegt að þurfa að standa í slíkri baráttu á fyrstu árum 21. aldar, mörgum áratugum eftir að flestar aðrar borgir, með miklu stærri sögulega byggð, hurfu frá niðurrifsstefnunni sem einkenndi áratugina eftir seinni heimstyrjöld.
Í fjármálakrísunni hrundi verð lóða og „byggingarréttar“. Með því gafst einstakt tækifæri fyrir borgina til að leiðrétta fyrri mistök. Því miður var það tækifæri ekki nýtt og ekki leið á löngu áður en ástandið versnaði til muna. Hvergi virðist mega vera heildstæð þyrping húsa í sígildum stíl, hvort sem það er steinsteypuklassík, timburhús eða blanda þessara sögulegu íslensku húsagerða.
Ekki eru mörg ár síðan stórbruni á horni Lækjargötu og Austurstrætis eyðilagði nokkur af sögufrægustu húsum miðbæjarins. Þá var tekin ákvörðun um að endurgera húsin. Erfitt er að ímynda sér að slík ákvörðun yrði tekin núna.
Hið merka gamla verkamanna- og iðnaðarhverfi Reykjavíkur, Skuggahverfið, er nú horfið. Meðfram Laugavegi og sunnan og norðan götunnar hverfa gömlu húsin eitt af öðru og lóðirnar eru fylltar á alla kanta með steinsteypukumböldum. Gamlar verslanir eru hraktar úr miðbænum ein af annarri. Brátt verður fátt eftir fyrir ferðamennina að skoða þegar þeir fara út af hótelum sínum nema önnur hótel (eða önnur ný hús byggð samkvæmt alþjóðlegri tísku síðustu ára).
Elstu byggð höfuðborgarinnar, Kvosinni, hefur ekki verið hlíft. Aldeilis ekki. Við svo kallað Hafnartorg, sem stendur ofan á víkinni sem Reykjavík er kennd við og liggur að elstu götum borgarinnar, er risin þyrping stórhýsa sem ættu betur heima í nýju skrifstofuhverfi í jaðri Berlínar eða Birmingham.
Eyðilegging „Nýhafnarinnar“ í Reykjavík, Lækjargötunnar, heldur áfram. Þegar leyfi var veitt til að rífa gamla Iðnaðarbankann og auka byggingarmagn á lóðinni var það gert til að liðka fyrir byggingu húss sem myndi styrkja heildarmynd götunnar. Þau áform voru svo sett í pappírstætarann en byggingarmagn enn aukið svo hægt væri að koma fyrir „nútímalegu“ hóteli á horninu sem umfram önnur myndar andlit miðbæjarins. Hótelið var byggt yfir skála frá landnámstíð. Steinsnar frá er verið að byggja hótel yfir hluta af gamla kirkjugarðinum í Reykjavík og upp að húsum Alþingis. -Framkvæmd sem erfitt er að ímynda sér að hefði verið leyfð í nokkru öðru Evrópulandi.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis reyndi að grípa inn í með frumvarpi um skipulag á Alþingisreitnum. Ég og Jón Gunnarsson þingmaður endurfluttum frumvarpið án þess að það fengi að komast til afgreiðslu. Enn verra er þó að nú hyggst Alþingi taka virkan þátt í að steypa yfir miðbæinn.
Í dag stendur til að taka fyrstu skóflustunguna að nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis á lóð þar sem áður stóð fjölbreytileg þyrping gamalla timburhúsa. Á lóðinni fundust minjar frá einni elstu byggð á Íslandi en þær verða nú fjarlægðar til að rýma fyrir bílastæðakjallara. Minjarnar hefði hugsanlega mátt varðveita í nýju húsi. Aðalatriðið var þó að nýbyggingin væri til þess fallið að styrkja heildarmynd byggðarinnar í miðju hins agnarsmáa gamla miðbæjar höfuðborgar Íslands.
Á sínum tíma samþykkti ríkisstjórnin tillögu um að óbyggt hús sem Guðjón Samúelsson teiknaði fyrir þennan stað yrði reist fyrir Alþingi. En svo tók kerfið völdin og nú ætlar vinnustaðurinn minn, Alþingi Íslendinga, að taka þátt í steinsteypukassavæðingu miðborgarinnar.
Húsið sem til stendur að reisa er teiknað af mjög færum arkitektum (sem hafa unnið afrek bæði í gömlum stíl og nýjum) en það ætti betur heima í Borgartúni en í miðpunkti gamla bæjarins í Reykjavík. Á tölvugerðum myndum virðist húsið bjart og nánast litríkt (röndótt). En eins og dæmin sanna er lítið að marka tölvugerðar myndir af slíkum húsum (klassísk hús líta jafnan betur út í raunveruleikanum en á teikningum en tískuhús mun síður).
Að innan virðist hrá steinsteypan umlykja allt. Hið gráa og kalda umhverfi er ólíkt hlýjum og notalegum innviðum gamla þinghússins. Þrátt fyrir að Alþingishúsið hafi verið miðpunktur deilna um allt mögulegt í um 140 ár ber flestum saman um að andinn í húsinu sé góður. Það helgast ekki hvað síst hinni hlýlegu hönnun þess. Þannig eiga þinghús að vera, til þess fallin að lyfta andanum og auka vellíðan og bjartsýni.
Með þessari framkvæmd er Alþingi að kasta á glæ einstöku tækifæri til að auka við það sem gerir gamla bæinn í höfuðborg Íslands sérstakan.
Í frægri grein sinni, um áformað niðurrif Bernhöftstorfunnar, frá árinu 1971 skrifar Halldór Laxness: „Ýmsir sem reikað hafa gaungumóðir um tískuborgir sem svo eru kallaðar, en það eru þær borgir sem gánga fljótast úr tísku, slíkir pílagrímar munu þess minnugir hver hvíld og hressing það einatt var að hitta fyrir sér innan um gler og plast og ál fornhýsi með yfirsvip og andblæ liðinna tíða, hlutföll hvílandi í sjálfum sér og húsið alt í þokkafullu sambandi við jörð sína og loft…“
Alþingi leggur nú sitt af mörkum við að tískuborgarvæða gamla miðbæinn og tekur þátt í þeirri eyðileggingu sem einkennt hefur skipulagsstefnu undanfarinna ára.
Meira um eyðileggingu miðborgarinnar hér: http://sigmundurdavid.is/uggvaenleg-throun-i-skipulagsmalum-borgarinnar/