Fréttatilkynning
Í byrjun ágúst, fyrir mánuði, hófst söfnun áskorana til forseta Íslands á vefnum www.synjun.is. Áskorunin er svohljóðandi:
„Við undirrituð skorum á þig forseta lýðveldisins Íslands Hr. Guðna Th. Jóhannesson að beita málskotsrétti þínum til þjóðarinnar skv. 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og synja staðfestingar á hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi Íslendinga sem fela í sér afsal á yfirráðum Íslendinga yfir náttúruauðlindum okkar, svo sem orku vatnsaflsvirkjana og jarðhitasvæða, drykkjarvatni og heitu vatni, og afsal á stjórn innviða tengdum þeim til erlendra aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríki eða ríkjasambönd, og vísa þannig lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Forsvarsmenn Synjun.is höfðu samband við skrifstofu forsetans og óskuðu eftir fundi með forseta Íslands svo hægt verði að afhenda þær þúsundir undirskrifta sem safnast hafa verið með áskoruninni. Í gær barst svar frá forseta Íslands þar sem staðfest var að hann gæti tekið á móti undirskriftunum kl. 09:00 á fimmtudagsmorgunn, 5. september, á Staðastað, skrifstofu forseta Íslands, að Sóleyjargötu 1 í Reykjavík. Verða undirskriftirnar því afhentar á morgun.
Með vinsemd og virðingu,
Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur
Hildur Sif Thorarensen, verkfræðingur