Rússneska útgerðarfélagið Norebo hefur gengið frá kaupum á 54,5% hlut í fyrirtækinu Vélfagi en félagið hefur verið í eigu hjónanna Bjarma Sigurgarðarssonar og Ólafar Ýrar Lárusdóttur.
Akureyri.net greindi fyrst frá. Kaupverðið er í fréttatilkynningu sagt trúnaðarmál, en samkvæmt ársreikningi 2020 nam velta fyrirtækisins rúmlega 525 milljónum króna og var hagnaður þess rétt rúmar 32 milljónir.
„Viðskiptin eru afar ánægjuleg fyrir Vélfag og gríðarleg viðurkenning fyrir eigendur og starfsfólk fyrirtækisins. Mikill fengur er í Norebo sem hluthafa og samstarfsaðila, kaupin styrkja mjög stoðir Vélfags og búa fyrirtækið undir aukið þróunarstarf og verulega aukningu í framleiðslu,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að hjónin Bjarmi og Ólöf Ýr munu áfram gegna framkvæmdastjórastöðum sínum en þau stofnuðu Vélfag árið 1995 á Ólafsfirði og er fyrirtækið með starfsemi þar og á Akureyri. Fyrirtækið framleiðir og hannar fyrirtækið tölvustýrðar flökunarvélar, hausara, roðdráttarvélar og allan jaðarbúnað til að koma heilum fiski í flök og áframvinnslu.
Verkefni fyrirtækisins í Rússlandi hefur verið í örum vexti og hefur nú Norebo, sem er stærsta útgerðarfélag Rússlands og meðal þeirra stærstu í heimi, ákveðið að eignast meirihluta í félaginu.