Sanna Magdalena Mörtudóttir fjallar um húsnæðismál í skrifum sínum:
,,Núna í borgarstjórn erum við að ræða viðbrögð við niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Fannst mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á stöðuna hjá Félagsbústöðum en þar eru 903 umsóknir vegna félagslegra leiguíbúða og að baki 157 umsókna eru einstaklingar og fjölskyldur með börn.
Það er óásættanlegt að fólk þurfi að bíða og bíða eftir aðgengi að öruggu húsnæði á viðráðanlegu húsnæði og auðvitað tel ég að við eigum að ræða þetta í samhengi við niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði en meirihlutinn virðist líta svo á að það sé nóg að hafa sér áætlun um fjölgun almennra félagslegra leiguíbúða.
Áætlun sem gerir eingöngu ráð fyrir 500 fleiri almennum félagslegum leiguíbúðum á kjörtímabilinu. Lagði áherslu á að ég myndi frekar vilja sjá offramboð af félagslegum íbúðum frekar en tómum lúxusíbúðum. Hoppaði þó óvart yfir eina setningu sem ég ætlaði að segja í ræðu minni en birti hana hér í heild sinni og linkinn á borgarstjórn í beinni ef einhver hefur áhuga á að fylgjast með.
Viðbrögð við niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði:
Hér í niðurstöðum átakshóps um aukið framboð og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði eru ábendingar og tillögur sem benda á mikilvægi þess að bæta þurfi stöðuna á leigumarkaði, þar sem það kemur fram að þó að mikið hafi verið byggt, henti það síður tekju- og eignalágum og slíkt á svo sannarlega við hér í borginni. Hér er verið að leggja til að fyrstu viðbrögð borgarinnar verði að samþykkja þrjá liði sem tilgreindir eru og snúa að því að uppfæra áætlun um úthlutun lóða til næstu fimm ára með eins nakvæmum hætti og hægt er, skipa samninganefnd vegna viðræðna við ríkið um uppbyggingu á lóðum í eigu ríkisins og einfalda og endurskoða ferla sem tengjast skipulags- og byggingarmálum.
Þetta er góðir punktar en alls ekki nóg. Ég myndi t.d. vilja sjá lið um að stórfjölga félagslegum leiguíbúðum. Þó að það sé fyrirhugað að stækka eignasafnið og markmiðið er að fjölga almennum félagslegum leiguíbúðum um 500 á kjörtímabilinu, þá eru samt sem áður 903 einstaklingar á biðlista og að baki 157 umsókna eru einstaklingar og fjölskyldur með börn, ef litið er til einstæðra feðra, einstæðra mæðra og hjóna eða sambýlisfólks með börn.
Í greinargerð Félagsbústaða með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 kemur fram að: „Undanfarin tvö ár hefur helsta aðferð félagsins til stækkunar eignasafnsins verið kaup á notuðum hagkvæmum íbúðum á almennum markaði, en lang mest þörf er á að fjölga litlum íbúðum í eignasafninu. Framboð af slíkum eignum hefur hins vegar verið lítið undanfarin misseri.“ Nýlega birtist fréttir af því að íbúðir í miðbænum seljist ekki, það er vegna þess að þetta eru ekki þær íbúðir sem þörf er á. Þetta er niðurstaðan þegar markaðnum er gefið skipulagsvaldið. Við stöndum uppi með íbúðir sem enginn virðist vilja á meðan að 903 umsóknir liggja á borði borgarinnar eftir úthlutun á félagslegri leiguíbúð.
Þar eru dæmi um að fólki hafi beðið í mörg ár sem er algjörlega óásættanlegt. Því miður er ekki hægt að búa í biðlistum og því miður er ekki hægt að búa í áætlunum um íbúðauppbyggingar og samningsmarkmiðum um kaup á 5% nýbygginga. Hversu lengi þurfa einstaklingar og fjölskyldur að bíða? Eitt ár í viðbót, tvö ár í viðbót? Eða munu þeir jafnvel aldrei komast af þessum biðlista og inn í öruggt húsaskjól. Ekki sé ég að það samræmist lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna að viðvera á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð uppfylli skilyrðin um þau lögbundnu hlutverk sem sveitarfélaginu ber að sinna. Ég get ekki heldur séð það að borgin sé að uppfylla skyldur sínar þegar fólk neyðist til að búa í ósamþykktum iðnaðarrýmum og að börn þurfi að búa við slíkar ástæður.
Á sama tíma birtast okkur fréttir um að lúxúsíbúðir seljist ekki. Kemur það einhverjum á óvart? Hver bað um þetta? Það var greinilega engin raunveruleg þörf fyrir þessum íbúðum. Ég tel þetta vera afleiðing kolrangra áherslna í húsnæðisstefnu sem hefur verið við lýði hér í borginni, þar sem áhersla hefur fyrst og fremst verið á að þjóna ímynduðum þörfum annarra svo að hægt hafi verið að skapa ímynd um skemmtilega og flotta borg frekar en að byggja nóg fyrir þá sem þurfa bráðnauðsynlega á húsnæði á að halda. Hvernig á maður annars að túlka þennan veruleika sem blasir við okkur? Við vitum að það er gríðarleg þörf á húsnæði og að það þurfi að stórauka íbúðauppbyggingu fyrir þá sem verst standa. Út frá húsnæðisstefnu síðustu ára sitjum við uppi með rándýrar lúxusíbúðir sem enginn vill, sem enginn virðist hafa beðið um. Snúum skipinu við og komum á raunverulegum breytingum til hins betra. Höfum frekar offramboð á félagslegum leiguíbúðum frekar en rándýrum íbúðum, pössum að það sé nóg í boði fyrir þá sem þurfa, pössum að enginn þurfi að upplifa húsnæðisóöryggi, tryggjum grunnþarfir allra borgarbúa.
Ég vil enda þetta á því að minna á orð sem eru rituð á vef borgarinnar og sett fram þegar samþykkt var árið 2010 að vinna húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020 ásamt aðgerðaáætlun. Þar stendur: „Meginmarkmiðið skyldi vera fjölbreyttur og sveigjanlegur húsnæðismarkaður sem tryggði öllum þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði.“ Þetta er ekki staðreyndin sem birtist okkur í dag og það virðist vera langt í land með að ná þeim markmiðum. Þó að tillögurnar um viðbrögð borgarinnar snúi að miklvægum málum þá þurfum við eitthvað miklu meira en uppfærða áætlun um úthlutun lóða, viðræður við ríkið um uppbyggingu á lóðum ríkisins og einföldun á reglugerðum á skipulags- og byggingarmálum. Við þurfum að tryggja hag leigjenda, gæta þess að þeir greiði ekki of hátt hlutfall ráðstöfunartekna sinna í leigu, styðja við leigjendasamtök og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að styðja enn frekar við óhagnaðardrifin leigufélög.
Ég vil sjá borg þar sem húsnæði er í umsjá félagslega geirans, því hvað er húsnæði annað en grunnforsenda velferðar, húsnæði er ekki eins og hver önnur vara og aðgengi að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði á ekki að vera eitthvað sem gengur kaupum og sölum á markaði sem hegðar sér út frá sínu eigin höfði. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga stendur: „Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna“.
Með því að setja einstaklinga á biðlista til margra ára, er ekki verið að tryggja aðgengi að öruggu leiguhúsnæði, með því að heimila byggingu á dýrum íbúðum sem engin þörf er á, er ekki verið að tryggja aðgengi allra að húsnæði og með því að ætlast til þess að markaðurinn sé töfralausnin, er ekki verið að tryggja aðgengi að öruggi húsnæði fyrir tekju- og eignalága. Tryggjum að borgarlandið nýtist í uppbyggingu á íbúðum sem þjóna þörfum þeirra sem hafa þurft að bíða og bíða í of langan tíma eftir öruggi heimili. Einstaklingar og fjölskyldur á biðlista eiga að geta séð fram á að geta komist í öruggt húsaskjól, ungt fólk á að geta byggt upp sitt eigið heimili á meðan það er ennþá ungt og börn eiga ekki að þurfa að búa í iðnaðarhúsnæðum. Ég trúi því að það sé hægt og þetta er það sem við eigum að einblína á.“