,,Forysta verkalýðshreyfingarinnar á heiður skilinn fyrir að hafa tekist að ná fram viðurkenningu á skaðsemi verðtryggingarinnar og að herða að henni í nýjum kjarasamningi. Húsnæðisliðurinn er úti á nýjum lánum. Eitraði kokkteillinn er líka tekinn út, lánin þar sem fyrstu tuttugu og eitthvað árin eru einungis greiddir vextir en ekki króna inn á höfuðstól.
Þetta eru tvö atriði í tangarsókn gegn verðtryggingunni sem birtist í frumvarpi mínu um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Sannarlega ánægjulegt. Eftir standa hinir tveir meginþættir tangarsóknarinnar. Þeir eru óbeinu skattarnir sem rata beint inn í verðtrygginguna eins og bensínið, áfengið, tóbakið og kolefnisgjaldið og ofurvextir á verðtryggð lán ákveðnir í fákeppni og án samanburðar við erlenda vexti enda hvergi á byggðu bóli boðið upp á verðtryggð lán til einstaklinga.
Ég tel á engan hallað í verkalýðshreyfingunni þó ég leyfi mér að þakka sérstaklega Vilhjálmi Birgissyni fyrir hans þátt í þessu máli og bæti við að Villi Birgis náði fram athugun á kerfisbundinni mæliskekkju á verðlagi, vísitölubjaganum svonefnda, sem kostað hefur heimilin ógrynni fjár á umliðnum árum.“ Segir Ólafur Ísleifsson um verðtrygginguna.