Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í Bretlandi en samkvæmt talningu næturinnar stefnir í að flokkurinn verði með um 410 þingmanna meirihluta á breska þinginu.
Keir Starmer formaður Verkamannaflokksins verður næsti forsætisráðherra Bretlands
Rishi Sunak, forsætisráðherra, sem boðaði óvænt til kosninga fyrir sex vikum, viðurkenndi ósigur í nótt en Íhaldsflokkurinn fékk sína verstu útreið frá upphafi og endaði með 119 þingmenn, og tapar þannig 248 þingsætum. Frjálslyndir demókratar fengu 71 þingsæti.
Fjölmargir meðlimir í ríkisstjórn Rishi Sunak héldu ekki þingsætum sínum í nótt samkvæmt BBC, þar á meðal Alex Chalk dómsmálaráðherra, Grant Shapps varnarmálaráðherra, Gillian Keegan menntamálaráðherra, Michelle Donelan vísindaráðherra og Lucy Frazer menningarmálaráðherra.
Liz Truss fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands tapaði þingsæti sínu í suðvestur Norfolk með 630 atkvæðum. Terry Jermy, frambjóðandi Verkamannaflokksins tekur sæti Truss. Jeremy Hunt fjármálaráðherra hélt þingsæti sínu með naumindum en um tíma gáfu útgáfuspár annað til kynna.