Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara í Reykjavík í kjölfar umfjöllunar Heimildarinnar um tilboð sem hann fékk frá Leó Árnasyni fjárfesti árið 2020. Greint er frá málinu hjá fréttamiðlinum Sunnlenska.is og þar segir jafnframt:
Þetta segir Tómas Ellert í samtali við Heimildina í dag. „Það var hringt í mig áðan og ég var boðaður í skýrslutöku. Mér var sagt að þetta væri vegna mögulegs mútubrots,“ segir Tómas.
Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir í samtali við mbl.is að málið hafi komið inn á borð hjá embættinu og sé til meðferðar þar. Samkvæmt lögreglulögum eigi embættið að sjá um rannsókn mála þar sem grunur er um mútur gegn opinberum aðilum. Því fylgist embættið með ef slík mál komi upp í umræðu eða fréttaumfjöllun og skoðar þau ef þurfa þykir.
Fram hefur komið hjá Heimildinni að Tómas Ellert segir að Leó hafi boðið sé fjárhagslegan stuðning í skiptum fyrir pólitíska fyrirgreiðslu árið 2020. Skilyrðið fyrir stuðningnum var að Miðflokkurinn ynni að því að Árborg félli frá kaupum á húsi Landsbankans á Selfossi. Landsbankinn bauð húsið til sölu í október 2020 og átti sveitarfélagið hæsta tilboðið. Það var hins vegar dregið til baka og Sigtún þróunarfélag, sem átti næsthæsta tilboðið, keypti húsið.
Leó neitar að hafa gert Tómasi skilyrt tilboð um fjárhagsaðstoð gegn því að fá pólitíska fyrirgreiðslu frá honum.