Þann 3. september sl. stóð Velferðarvaktin fyrir fjarfundi á Vestfjörðum, sem sendur var út frá stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Meginefni fundarins var að kynna fyrir fulltrúum Velferðarvaktarinnar stöðuna á Vestfjörðum í þeim málaflokkum sem vaktin lætur sig varða þ.m.t. félagslegar aðstæður viðkvæmra hópa. Þá voru helstu störf og verkefni á vegum Velferðarvaktarinnar kynnt. Auk fulltrúa Velferðarvaktarinnar bauðst sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum, skólastjórnendum, fulltrúum frjálsra félagasamtaka sem starfa á svæðinu og ýmsum öðrum aðilum sem koma að starfi með eldra fólki, fötluðu fólki o.fl. að taka þátt í fundinum og umræðum.
Helstu áskoranir
Á fundinum sögðu fulltrúar félagsþjónustu á svæðinu frá helstu áskorunum í félagsþjónustu á Vestfjörðum s.s. varðandi barnavernd og þjónustu í þágu farsældar barna, hvers kyns ofbeldi, fátækt, málefni fatlaðs fólks, eldra fólks og innflytjenda. Sameiginlegar áskoranir á svæðinu eru m.a. að erfitt er að manna ýmsar stöður, erfitt getur verið að veita íbúum í mjög fámennum og afskekktum byggðalögum þjónustu vegna landfræðilegra staðhátta sem og vegna nándar milli þjónustuveitanda og þess sem þjónusta á og svo eru samgöngur erfiðar sérlega að vetrarlagi.
Öflugt samstarf um ný verkefni
Fram kom að fjölmörg ný framfaraverkefni eru í innleiðingu á Vestfjörðum. Þar má nefna Farsæld í þágu barna, Gott að eldast – þróunarverkefni um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk, Öruggari Vestfirðir – svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum og fleira. Hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum og aðrir sem koma að verkefnunum mikið og gott samstarf um innleiðinguna og eru bjartsýn á þróun mála.
Dagskrá fundarins var eftirfarandi:
1. Fundur settur og kynning á Velferðarvaktinni.
Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktar.
2. „Gott að eldast“ þróunarverkefni um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk.
Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir, tengiráðgjafi Gott að eldast fyrir Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað, Súðavíkurhrepp, sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
3. „Öruggari Vestfirðir „ svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.
Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum.
4. Helstu áskoranir í félagsþjónustu á Vestfjörðum s.s. varðandi barnavernd og þjónustu í þágu farsældar barna, hvers kyns ofbeldi, fátækt, málefni fatlaðs fólks, eldra fólks, innflytjenda o.s.frv.
Hvert svæði dregur fram sína sérstöðu:
- Félagþjónusta Ísafjarðarbæjar (Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur).Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar.
- Félagþjónusta Bolungarvíkurkaupstaðar.Guðný Hildur Magnúsdóttir, félagsmálastjóri hjá Bolungarvíkurkaupstað.
- Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps (Strandabyggð, Reykhólahreppur, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur).Hlíf Hrólfsdóttir, ráðgjafi félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps.
- Félagsþjónusta Vestur-Barðastrandarsýslu (Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur).
Arnheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Vesturbyggðar.
5. Dæmi um áherslur í skóla- og tómstundastarfi.
Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar.
6. Umræður og fundaslit.