Þótt samdrátturinn í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í desember hafi verið mun minni en mánuðina á undan þá er samdráttur ársins 2020 fjórfalt meiri en áður hefur mælst. Umferðin í desember var tæplega átta prósentum minni en í sama mánuði í fyrra. Umferðin allt árið dróst saman um ríflega 10 prósent sem er fjórfalt fyrra met sem var á milli áranna 2008 og 2009 að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin í síðasta mánuði ársins 2020 reyndist 7,7% minni en á árinu 2019. Þessi samdráttur er mun minni en búist var við því í síðustu tveimur mánuðum þar á undan varð 20% samdráttur.
Þá er það orðið staðreynd að umferð jókst einungis í einum mánuði á síðasta ári borið saman við árið 2019 en það var 1,2% aukning milli júní mánuða. Þó ekki sé hægt að fullyrða, þar sem eldri mælingar eru ekki til með núverandi hætti fyrir árið 2005, þá verður það að teljast afar líklegt að svona staða hafi aldrei áður komið upp frá því að Vegagerðin hóf mælingar með skipulögðum hætti á öllu þjóðvegakerfinu árið 1975.
Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í desember í umræddum mælisniðum. Mældist mestur samdráttur í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi eða 13,7% samdráttur en minnstur í mælisniði á Reykjanesbraut eða 3,1%.
Umferðin jókst í tveimur vikudögum eða á þriðju- og miðvikudögum í síðasta mánuði borið saman við desember árið 2019. En þá daga sem umferð dróst saman mældist mestur samdráttur á sunnudögum eða 23% en minnstur á fimmtudögum eða rúmlega 6%. Varhugavert er þó að draga of miklar ályktanir af vikudagsumferð í desember þar sem jólin eru ekki á sömu vikudögum á milli ára.
Nú þegar árið 2020 er liðið er það orðin staðreynd að umferð yfir umrædd mælisnið dróst saman um 10,2% sem er langmesti samdráttur sem mælst hefur. Nú kann það e.t.v. að hljóma lítið að umferð dragist saman um einn tíundahluta, en þá þarf að skoða þessar umferðarartölur í samhengi við eldri mælingar og einnig fylgni þeirra við verga landsframleiðslu (98%):
Mesti mældi samdráttur milli ára hafði áður verið á milli áranna 2008 og 2009 eða 2,4% samdráttur. Núverandi samdráttur er því rúmlega fjórum sinnum stærri en þá.
Séu þessar tölur notaðar til að gefa vísbendingu um gang hagkerfisisns, þá samsvarar þessi samdráttur sama samdráttarhlutfalli í vergri landsframleiðslu, sem einnig væri nýtt met í nútímasamfélagi. Það má því segja að allar kreppur sem núlifandi kynslóðir Íslendinga hafa lifað koðna í samanburði við samdráttinn á síðasta ári.
Fram kemur að afar fróðlegt verður því að fylgjast með yfirstandi ári m.t.t. þess hversu fljótt hagkerfið tekur við sér, því segja má að umræddar umferðartölur séu nokkurskonar kvikasilfursmælir á umsvif þjóðfélagsins í rauntíma og það má sjá með því að rýna í umferðartölur Vegagerðarinnar.