Við munnlegan málflutning í Héraðsdómi s.l. föstudag, útskýrði Flóki Ásgeirsson, lögmaður Gráa hersins, málið á einfaldan hátt: Málið snýst um hvort það standist eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að skerða ellilífeyri vegna lífeyrissjóðsréttinda með þeim hætti sem ágreiningslaust er að gert hefur verið í tilviki stefnenda málsins, þ.e. um 45% af lífeyrissjóðstekjum þeirra umfram 25.000 krónur á mánuði og um 56,9% þegar tekið er tillit til heimilisuppbótar.
Flóki fór yfir það í máli sínu að bein skerðing sem stefnendur málsins hefðu orðið fyrir af þessum sökum á árunum 2017-2020 næmi á bilinu 12-20% af heildartekjum þeirra hlutaðeigandi ár. Það væri sú eignaskerðing sem málið snérist um. Með málinu eru stefnendur að leita viðurkenningar á því að hún stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.
Málsóknin gegn Tryggingastofnun:
Ríkislögmaður vill að málinu verði visað frá dómi án kröfu um frávísun. Athugasemdir ríkislögmanns útúrsnúningur, segir Flóki Ásgeirsson lögmaður
Í gær voru teknar fyrir þær athugasemdir sem ríkislögmaður gerir í greinargerð sinni við formhlið málsins. Í greinargerðinni er eins og áður hefur komið fram ekki gerð krafa um frávísun en fullyrt að vísa beri málinu frá dómi án slíkrar kröfu.
”Í stuttu máli telur ríkislögmaður að með málsókninni sé stefnt að því að hnekkja þeim breytingum sem gerðar voru á ellilífeyri með breytingarlögum sem tóku gildi 1. mars 2017. Í þessum breytingum fólst hækkun á ellilífeyri sem einnig náði til aðila málsins“, segir Flóki Ásgeirsson, einn lögmanna stefnenda. „
Ríkislögmaður byggir á því að stefnendur séu í reynd að freista þess að hnekkja hækkunum sem þeir fengu frá og með 1. mars 2017. Ríkislögmaður telur óútskýrt hvaða lögvörðu hagsmuni stefnendur hafi af slíkum kröfum og óljóst hverjar verði afleiðingar dóms um þær.” segir Flóki ennfremur.
”Um þetta var fjallað í munnlegum málflutningi lögmanna í gær. Eins og ég tók fram þar eru þessar athugasemdir ríkislögmanns útúrsnúningur sem í besta falli er byggður á misskilningi. Ég gerði grein fyrir því að vitanlega væru málsaðilar ekki að höfða mál í því skyni að krefjast lægri ellilífeyris.
Málið snúist um hvort það standist eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að skerða ellilífeyri vegna lífeyrissjóðsréttinda með þeim hætti sem ágreiningslaust er að gert hefur verið í tilviki stefnenda málsins, þ.e. um 45% af lífeyrissjóðstekjum þeirra umfram 25.000 krónur á mánuði og um 56,9% þegar tekið er tillit til heimilisuppbótar.
Ég fór yfir það í máli mínu að bein skerðing sem stefnendur málsins hefðu orðið fyrir af þessum sökum á árunum 2017-2020 næmi á bilinu 12-20% af heildartekjum þeirra hlutaðeigandi ár. Það væri sú eignaskerðing sem málið snérist um. Með málinu væru stefnendur að leita viðurkenningar á því að hún stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.“ segir Flóki
Dómari málsins mun nú meta hvort hann telur að vísa beri því frá dómi af sjálfsdáðum í ljósi athugasemda ríkislögmanns. Sú niðurstaða verður tilkynnt aðilum 16. febrúar nk. þegar málið verður næst tekið fyrir.
Öldungadeild VR styður baráttu okkar!
Forystusveit Öldungadeildar VR, en þar eiga sæti allir 65 ára og eldri sem greitt hafa iðgjöld til VR á sinni starfsævi, fundaði nú í janúar og lagði línur um starfið framundan í baráttumálum eldri félagsmanna VR. Í nýjum reglum um Öldungadeild VR sem stjórn VR samþykkti á síðasta ári kemur m.a. fram að forystusveitin sem ber titilinn Öldungaráð VR er skipað til bráðabirgða fram að aðalfundi VR í lok mars nk. Þá mun stjórn skipa þrjá en meðlimir í Öldungadeild VR munu kjósa um þrjá þeim til viðbótar eða sex alls.
Mörg önnur mál er lúta að hagsmunum eldri félagsmanna verða svo einnig á dagskrá, s.s. húsnæðismál ofl. – við munum færa nánari fréttir af störfum og baráttumálum Öldungadeildar félagsins á næstu misserum.