Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir Mohamad Thor Jóhannessyni, áður Kourani, sem var sakfelldur fyrir stunguárás og ýmis brot gegn valdstjórninni í héraðsdómi. Hann hafði áður verið dæmdur í átta ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ríkisútvarpið fjallaði fyrst um dóminn:
Stunguárás og ýmsi brot gegn valdstjórninni
Mohamad var ákærður fyrir stunguárás í versluninni OK Market við Hlíðarfót í Reykjavík og tveir af sex ákæruliðum ákærunnar sneru að henni. Þar var hann ákærður fyrir að hafa stungið mann í andlitið og fyrir að hafa veist að öðrum manni í versluninni sem reyndi að koma hinum til aðstoðar.
Hinir fjórir ákæruliðirnir sneru að brotum gegn valdstjórninni. Þar var Mohamad ákærður fyrir að hafa hrækt á fangavörð á Litla-Hrauni í júní 2023 og að hafa skvett vökva af óþekktu tagi, mögulega þvagi, framan í annan. Í dómi héraðsdóms segir um þann ákærulið að Mohamad hefði verið erfiður fangi. Sjálfur sagði hann fangaverðina ljúga upp á sig.
Hann var einnig ákærður fyrir að hafa hótað lögreglumanni á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og fjölskyldu hans lífláti. Einnig fyrir að hafa hrækt í andlit lögreglumanns í Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg sama dag.
Hótaði vararíkissaksókanara og átti að baki fjölmörg brot og þrjá dóma
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, greindi frá því í fyrra að Mohamad hefði ítrekað haft í hótunum við sig og fjölskyldu sína eftir að kæra Mohamads á hendur öðrum manni var felld niður.
Helgi staðfesti niðurfellinguna fyrir hönd embættis ríkissaksóknara og í kjölfarið hefði Mohamad hótað að myrða Helga og fjölskyldu hans, ítrekað mætt á skrifstofu hans og haft þar í hótunum. Mohamad var dæmdur fyrir þær hótanir 2022 í Héraðsdómi Reykjaness og Landsréttur staðfesti þann dóm 2023.
Mohamad kom hingað til lands í ársbyrjun 2017. Hann sótti um alþjóðlega vernd og fékk hana í maí 2018. Í millitíðinni, í desember 2017, var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir skjalabrot. Hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir ýmsar sakir í mars 2023. Meðal annars fyrir líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunnarbanni, eignaspjöll, brot gegn valdstjórninni, sprengjuhótanir, skjalafals, vopnalagabrot, umferðarbrot og nokkur brot gegn sóttvarnalögum. Þeirri afplánun lauk í janúar fyrir ári.
Skömmu eftir það, um miðjan mars, var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, valdstjórnarbrot, sprengjuhótun, tilraun til sprengjuhótunar og umferðarlagabrot.“ Segir í frétt rúv.is