Víðáttumikil hæð fyrir norðan land mun ráða veðrinu hjá okkur næstu daga og því mjög aðgerðalítið veður framundan og vorhugur í lofti. Austlæg átt ríkjandi, fremur stífur vindur allra syðst á landinu, en annars hægari. Skýjað austantil og með suðurströndinna og þurrt að kalla. Suðvestantil á landinu má gera ráð fyrir þunnri háskýjabliku, en ætti sólin að sjást í gegn. Léttir til norðantil á landinu og því sólríkt þar síðdegis. Léttskýjað í flestum landshlutum á morgun, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt austantil á landinu þar sem vindur kemur af hafi. Búast má við nokkurri dægursveiflu, hiti allt að 8 stigum yfir hádaginn þar sem sólin nær að verma, en aftur á móti má víða búast við næturfrosti, einkum inn til landsins þar sem hægur vindur og léttskýjað er.
Veðurhorfur á landinu
Austlæg átt 3-8 m/s en 10-15 syðst. Skýjað að mestu og stöku él A-lands, annars bjart með köflum. Yfirleitt léttskýjað á morgun, en skýjað við S- og A-ströndina. Hiti 2 til 8 stig að deginum, en víða næturfrost.
Spá gerð: 06.04.2019 09:45. Gildir til: 08.04.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Austlæg átt 3-8 m/s, en 10-15 syðst. Skýjað en úrkomulítið S- og A-til, annars víða léttskýjað. Hiti 2 til 8 stig að deginum, en næturfrost í flestum landshlutum.
Á fimmtudag:
Austanátt, skýjað og stöku skúrir eða él við S-ströndina, en léttskýjað á N-verðu landinu. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Suðaustanátt og dálítil væta, en yfirleitt þurrt og bjart veður N- og V-lands.
Spá gerð: 06.04.2019 08:14. Gildir til: 13.04.2019 12:00.