Aðalfundur Stjórnarskrárfélagsins 2. apríl 2023 ályktar …
• að stjórnarskrárbreytingar þoli enga bið.
• að núgildandi bráðabirgðastjórnarskrá frá 1944 sé úrelt og standi í vegi fyrir heilbrigðu samfélagi og stjórnarháttum. Í skjóli úreltrar stjórnarskrár rennur réttmætur arður þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum að mestu í vasa örfárra; í skjóli úreltrar stjórnarskrár er valda- og áhrifaleysi almennings viðhaldið og brýnustu lífshagsmunir hans sniðgengnir fyrir sérhagsmuni; í skjóli úreltrar stjórnarskrár er sótt að náttúru og lífríki landsins; í skjóli úreltrar stjórnarskrár er vegið að frelsi fjölmiðla; í skjóli úreltrar stjórnarskrár fær þrifist ofríki ráðherra og framkvæmdavalds, leyndarhyggja og vantraust til stjórnmála og stofnana samfélagsins;
• að stjórnvöldum og Alþingi beri að virða úrslit lýðræðislegra kosninga og fara að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 20. október 2012. Í því felst að taka fyrir og afgreiða þær tillögur sem kjósendur samþykktu að skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands;
• að Alþingi beri að biðja þjóðina afsökunar á þeim töfum sem orðið hafa á því að afgreiða tillögur hennar að nýrri stjórnarskrá;
• að Alþingi gangi frá frumvarpi að endurskoðaðri stjórnarskrá af heilindum og virðingu við almenning og lýðræðislega stjórnarhætti. Í því felst meðal annars að fara að áliti Feneyjanefndarinnar frá 9. október 2020. Þar segir að íslensk stjórnvöld verði að gefa þjóðinni gegnsæjar, skýrar og sannfærandi ástæður ef vikið yrði efnislega frá tillögum sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu sem grundvöllur nýrrar stjórnarskrár árið 2012. Hið sama orðaði Ragnar Aðalsteinsson lögmaður á þá leið að í ljósi þess að tillögurnar væru til orðnar með lýðræðislegum hætti yrðu þau sem vildu breyta þeim að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingarnar treystu betur almannahag en óbreyttar tillögur;
• að skora á stjórnmálamenn að sýna kjark og standa með lýðræðislegum stjórnarháttum, íbúum landsins og lífshagsmunum þeirra, gegn fámennum og valdamiklum sérhagsmunaöflum. – Við eigum nýja stjórnarskrá.
Stjórn Stjórnarskrárfélagsins, Katrín Oddsdóttir, Hjörtur Hjartarson, Jóna Benediktsdóttir, Kjartan Jónsson, Kristín Erna Arnardóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Þórir Baldursson