Riðuveiki er staðfest á fjórum sauðfjárbúum í Skagafirði, þ.e. Stóru-Ökrum 1, Syðri-Hofdölum, Grænumýri og Hofi í Hjaltadal. Á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, að undangengnum tillögum Matvælastofnunar, fyrirskipað niðurskurð alls fjár á búunum eða á um 2.500 gripum og hefur niðurskurður þegar verið framkvæmdur á búunum Hofi og Stóru-Ökrum. Samhliða vinnur ráðuneytið að því í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda að útfæra fjárhagslegan stuðning til bænda sem lenda í niðurskurði fjár vegna riðu.
Samkvæmt reglugerð skal skera niður allt fé á búum þar sem riða hefur komið upp. Í hjörðinni geta leynst smitaðar en einkennislausar kindur sem dreifa smitefninu á önnur bú með tilheyrandi skaða. Fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindarráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar ásamt sveitafélögunum í Skagafirði hafa í sameiningu unnið að því að finna leiðir til þess að mæta áskorunum í tengslum við förgun og eyðingu úrgangs sem fellur til við niðurskurðinn. Meðal annars að hraða förgun dýranna eins og kostur er, með sóttvarnir og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Áhrifaríkasta leiðin til að eyða príonum sem valda riðu er að brenna úrganginn í viðeigandi brennsluofni. Slíkur ofn er til staðar í Kölku Sorpeyðingastöð sf. í Reykjanesbæ. Þar sem Kalka annar ekki að brenna öllum úrganginum sem um ræðir fer sá úrgangur sem eftir stendur til urðunar á aflagðan urðunarstað við Skarðsmóa í Skagafirði. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur nú veitt Sveitarfélaginu Skagafirði tímabundna undanþágu fyrir notkun urðunarstaðarins til að taka á móti og urða allt að 100 tonn af sauðfé úr Tröllaskagahólfi. Undanþágan gildir eingöngu um hræ sem ekki er unnt að koma í brennslu. Matvælastofnun sér til þess að sá úrgangur sem talið er að mest áhætta stafi af hvað varðar riðusmit verði brenndur en dýrahræ sem ekki er unnt að brenna verða urðuð undir eftirliti Umhverfisstofnunar. Tryggja þarf að urðunarstað sé ekki hróflað til að fyrirbyggja útbreiðslu smitefnis.
Frá því að grunur um riðu kom upp hefur Matvælastofnun staðið að umfangsmikilli sýnatöku úr sauðfé innan Tröllaskagahólfs ásamt því að kortleggja flutninga sauðfjár innan hólfsins. Að beiðni Matvælastofnunar hefur rannsóknum verið forgangsraðað á grundvelli faraldsfræðilegra upplýsinga þannig að sýni úr fé sem var mest útsett fyrir riðusmiti hafi forgang í rannsóknum. Þær niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir sýna ekki fram á frekari grun um riðuveiki en niðurstöður úr öllum sýnatökum liggja ekki fyrir. Ríkissjóður ber kostnað af aðgerðum og hreinsun sem gripið er til vegna riðuveikinnar.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur að því í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda að skoða hvernig unnt sé að koma til móts við bændur sem lenda í niðurskurði vegna riðu.
Hvað er riðuveiki?
Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé og má nálgast upplýsingar um sjúkdóminn á vef Matvælastofnunar. Engar vísbendingar eru um að fólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né af neyslu afurða þess, svo sem kjöts, innmatar og mjólkur.
Hvers vegna þarf að skera niður sauðfé ef riðuveiki greinist?
Það er talið nauðsynlegt að skera allt fé niður á búi þar sem búið er að staðfesta riðu af því að í hjörðinni geta leynst kindur sem eru riðusmitaðar og skilja út smitefni en eru ekki farnar að sýna einkenni enn. Í niðurskurðum sem framkvæmdir hafa verið á síðustu 10 árum hafa riðusmitaðar kindur verið staðfestar í öllum hjörðum, allt frá 3 og upp í 19 kindur.
Hverjar eru smitleiðir riðuveiki innan sama sauðfjárbús og á önnur bú?
Riðusmituð kind útskilur smitefni frá sér með öllum vessum sem verða til hjá kindinni, þ.e.a.s. saur, þvagi, munnvatni, fósturvatni o.s.frv. Mikið magn af smitefninu finnst í hildum og fósturvatni. Riða smitast svo þegar aðrar kindur éta, drekka eða sleikja smitefnið með óhreinindum. Algengasta smitleiðin er um munn en getur líka orðið um sár t.d. við rúning eða bólusetningu. Smitdreifing innan fjárbúsins verður með umgangi þegar farið er á milli stía í sömu stígvélum, kindur færðar til eða með tólum og tækjum sem notuð eru við umhirðu. Smit getur borist á milli bæja með lifandi kindum og dauðum, skít, áhöldum eins og rúningsklippum og sprautunálum, landbúnaðartækjum, heyi og fólki (óhreinn skóbúnaður t.d.).
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Matvælastofnun
Umhverfisstofnun
- Útbreiðsla riðu á þrjá bæi staðfest – frétt Matvælastofnunar 27.10.20
- Útbreiðsla riðu í Tröllaskagahólfi – frétt Matvælastofnunar 23.10.20
- Upplýsingasíða Matvælastofnunar um riðuveiki
- Listi yfir riðutilvik síðustu 20 ára
- Grunur um nýtt riðutilfelli í Skagafirði – frétt Matvælastofnunar 16.10.20
- Riða í Skagafirði staðfest – frétt Matvælastofnunar 22.10.20