Líkt og í vor hafa margar fyrirspurnir borist Neytendasamtökunum varðandi réttarstöðu neytenda þegar seljendur þurfa að loka starfsemi vegna sóttvarnaraðgerða. Helst er um að ræða áskriftarsamninga við líkamsræktarstöðvar og íþrótta- og tómstundanámskeið.
Staða neytanda sem hafa gert slíka samninga, til dæmis um aðgang að líkamsræktarstöð í ákveðið tímabil, er ekki alltaf skýr að sögn Neytendasamtakanna. Hafi neytandi til dæmis keypt sér mánaðarkort og líkamsræktarstöðinni er lokað eftir hálfan mánuð, á hann þá rétt að fá endurgreitt að fullu, hlutfallslega eftir því sem eftir er af tímabilinu, alls engan rétt eða má líkamsræktarstöðin færa tímabilið aftur, þar til opna má stöðina?
Í grunninn hvíla alltaf þær skyldur á samningsaðilum að samninga ber að halda. Á það við um samninga við líkamsræktarstöðvar, sundstaði og alla aðra þjónustuveitendur. Aðalskylda kaupanda er í allflestum tilfellum að greiða samningsbundna upphæð. Aðalskylda þjónustuveitenda er svo að veita þá þjónustu er samið hefur verið um. Hert samkomubann hefur gert það að verkum að líkamsræktarstöðvar, sundstaðir, íþróttafélög og sumir námskeiðshaldarar geta tímabundið ekki uppfyllt sinn enda samningsins og mætti því segja að þau séu tilneydd til að vanefna samninginn. Á meðan á þeim vanefndum stendur, má spyrja hvort eðlilegt sé að kaupandi þjónustunnar uppfylli sinn enda samningsins að fullu.
Til að svara þeirri spurningu þarf að skoða samningsskilmálana vel, svo sem hvort í þeim sé fjallað um óvenjulegar eða óviðráðanlegar aðstæður og hvernig ábyrgð er þá háttað.
Ef sérstakir skilmálar taka ekki á þessum aðstæðum geta neytendur borið fyrir sig vanefndarúrræðum á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttar. Eflaust væri nærtækast að fara fram á afslátt í samræmi við hlutfall þjónustunnar sem ekki er veitt.
Dæmi: Líkamsræktandi kaupir mánaðarkort í líkamsræktarstöð sem lokar þegar tímabilið er hálfnað. Engir sérstakir samningsskilmálar gilda um þær aðstæður sem valda því að stöðinni er lokað. Seljandi þjónustunnar getur þar með ekki uppfyllt sinn enda samningsins að fullu og einstaklingurinn fer þar með fram á afslátt af kaupverði sem samsvarar hlutfalli veittrar þjónustu.
Í vor bar mikið á tillögum þjónustuveitenda að málalyktum, líkamsræktarstöðvar buðu viðskiptavinum sínum til að mynda í nokkru mæli upp á að lengja áskriftartímabilið um þann tíma sem stöðin var lokuð til að bæta fyrir þann tíma sem ekki var unnt að veita þjónustuna. Hugnist kaupendum slík boð er sjálfsagt að fallast á það. Neytendasamtökin telja þó hæpið að seljandi geti einhliða ákveðið hvernig afgreiða eigi málið og telja að neytendur eigi val um að fá hlutfallslega endurgreitt kjósi þeir það. Þetta á við nema annað sé ekki tekið sérstaklega fram í skilmálum samnings sem gerður var í upphafi.
Náist ekki sáttir milli neytenda og þjónustuveitenda vegna uppgjörs, geta neytendur alla jafnan borið ágreining er lýtur að vanefndum á samningi undir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Allar helstu upplýsingar um nefndina má finna með því að fylgja neðangreindum hlekk:
https://kvth.is/#/