Móðirin sem ákærð var fyrir að hafa orðið sex ára syni sínum að bana sem og fyrir tilraun til manndráps gagnvart eldri syni sínum hlaut í morgun 18 ára fangelsisdóm.
Dómurinn hefur ekki enn verið birtur en samkvæmt upplýsingum fréttastofu ríkisútvarpsins, sem fengust frá héraðssaksóknara verður það gert á morgun. Fyrirtaka málsins var lokuð fyrir fjölmiðlum.
Drengurinn fannst látinn á heimili fjölskyldunnar í Kópavogi í lok janúar. Hann bjó þar ásamt ellefu ára bróður sínum og móður, sem var handtekin á vettvangi.
Konunni er gefið að sök að hafa lagt kodda yfir andlit yngri sonar síns sem lá sofandi og ekki linað tökin fyrr en hún varð þess áskynja að drengurinn væri látinn.
Í framhaldinu hafi hún farið inn í svefnherbergi eldri sonarins, sem var einnig sofandi, og þrýst andliti hans niður í rúmið þannig að hann gat ekki andað. Drengurinn vaknaði við atlöguna, gat losað sig úr taki móður sinnar og flúði heimilið.