Ég var í vorhreingerningum og var ansi duglegur að henda allskonar drasli enda stutt í sumarið og sólina, hvað svo sem verður með þetta sumar sem allir eru að bíða eftir. Ég hefði reyndar getað farið í heimsreisu fyrir þessar 207 milljónir sem ég henti á haugana í vor.
Ég reikna ekki með að ég fari í margar sólarferðir úr þessu nema kannski eina í ár, það hefði kannski verið hægt að fara í fleiri og jafnvel taka smá frí í vinnunni ef ég hefði ekki óvart hent frá mér 207 milljónum. En ég er mjög duglegur og spontant þegar kemur að því að taka til og hendi þá gjarnan eins miklu og ég get og gámarnir á Völlunum taka endalaust við, allskonar drasli og reyndar verðmætum líka.
Þannig er mál með vexti að ég fór svo um daginn að fara yfir tölvur sem ég á og ég var búinn að leggja nokkrum fartölvum í gegnum tíðina. Í tiltektaræðinu mínu, hafði ég óvart hent einni fartölvu sem var reyndar sú verðmætasta. Ekki vegna þess hversu dýr hún var í innkaupum, hún var eiginlega hræódýr og verðlaus miðað við aðrar fartölvur í verslunum í dag.
Það sem var í henni var hinsvegar verðmætt, en það voru 206,908,460 krónur, eða 23 Bitcoin sem ég geymdi í tölvunni en verð á einu Bitcoin er 8.996.020 krónur í dag. Þetta er ansi mikill skellur og kennir mér það að fara aðeins hægar í vorhreingerningum á næstunni.
Ég hef heyrt af því að það sé fólk sem gramsi bæði hérlendis og erlendis í raftækjagámum, sérstaklega til þess að fara yfir gamlar og úreltar tölvur, í þeirri von að þar finnist Bitcoin. Það á kannski einhver eftir að hnippa í mig einhvern daginn og þá fær sá hinn sami vegleg fundarlaun og eina sólarlandaferð að auki.
Michael Moore fjallar um glæpina sem gerðu Ísland gjaldþrota