Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er fallinn. Einar Þorsteinsson borgarstjóri sleit samstarfinu á fundi oddvita meirihluta flokkanna í dag. Hann ætlar að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta við Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins.
Hann gerir ráð fyrir því að gera kröfu um að verða borgarstjóri í nýjum meirihluta.
Einar greindi frá þessu í viðtali við fréttastofu ríkisútvarpsins rétt fyrir klukkan átta í kvöld. Þá gekk hann út af fundi oddvita meirihlutaflokkanna. Hann sagði að fundarefnið hefði snúið að stöðunni í meirihlutanum.
„Ég hef tekið þá ákvörðun að slíta meirihlutasamstarfinu. Við teljum að við höfum ekki náð þeim árangri fyrir Reykvíkinga sem við lofuðum þeim. Við lofuðum þeim breytingum og í þessu samstarfi tekst okkur ekki að knýja fram breytingar sem við teljum nauðsynlegar.“
Einar segir að samstarfið hafi almennt séð gengið þokkalega en ágreiningur verið um suma hluti allt kjörtímabilið. „Við þurfum bara að taka stærri ákvarðanir. Til þess er ég kosinn. Ég lofaði Reykvíkingum breytingum í borginni og ég ætla að standa við það.“ Segir Einar í viðtali við Rúv.