,,Komandi átök á vinnumarkaði eru í boði stjórnvalda og sjálftökuliðsins, Þolinmæði almennings er þrotin.“
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags hvetur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um aukinn jöfnuð á landinu með róttækum tillögum í skattamálum
AFL lýsir vonbrigðum með framkomnar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um breytingar á álagningu skatta sem færir öllum – hálaunafólki sem láglaunafólki – skattalækkun.
,,AFL bendir á að skattbyrði lág-og meðallaunafólks hefur hækkað verulega síðasta áratug. Ef ríkisstjórnin vill koma í veg fyrir harðar vinnudeilur á komandi vikum – þarf hún að koma til móts við sjálfssagðar og réttlátar kröfur verkalýðsfélaganna.
Félagsmenn verkalýðsfélaganna hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu samfélagsins eftir bankahrun og þá kreppu sem græðgisvæðingin hrundi af stað fyrir 10 árum. Á sama tíma og alþýðufólk hefur unnið að heilindum að uppbyggingunni hafa ofurlaun og sjálftaka fest sig í sessi aftur. Brask og spákaupmennska hefur hækkað verð á íbúðarhúsnæði upp úr öllu valdi. Skattbyrði hefur verið velt yfir á láglaunahópa, bæði beint og með auknum þjónustugjöldum.
Komandi átök á vinnumarkaði eru í boði stjórnvalda og sjálftökuliðsins. Þolinmæði almennings er þrotin.
AFL Starfsgreinafélag mun halda áfram með félögum innan Starfsgreinasambandsins, Samiðnar og Landssambandi Ísl. Verslunarmanna að leita samninga við viðsemjendur – en lýsir um leið fullum stuðningi við baráttu félaga okkar í þeim félögum sem eru að boða til verkfalla. Um leið hvetjum við félgasmenn AFLs til að virða væntanleg verkföll annarra verkalýðsfélaga og ganga alls ekki í störf félagsmanna þeirra. Við vekjum athygli á því að ef einhverjir félagsmanna AFLs eru starfandi utan félagssvæðis AFLs – eiga þeir að ganga til verkfalla með verkalýðsfélögum á starfssvæði sínu“ Segir í ályktun sem var samþykkt á fundi sjtórnar AFLs þann 25. febrúar