Á sjötta tímanum í gær hafði skipstjóri á íslensku fiskiskipi samband við Landhelgisgæsluna og óskaði eftir aðstoð í kjölfar þess að snurpuvír hafði slitnað og einn um borð slasast. Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út en fiskiskipið var statt um 25 sjómílur norðvestur af Kópanesi. Veiðarfærið slitnaði einnig frá skipinu. Annað fiskiskip fylgdist með veiðarfærinu þar sem skipið sigldi á móti þyrlunni. Varðskipið Þór sem var í grenndinni var sömuleiðis kallað út til að aðstoða við að ná nótinni um borð á nýjan leik. Á áttunda tímanum í gærkvöld var skipverjinn hífður um borð í þyrluna og fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Áhöfnin á varðskipinu Þór hófst handa við að aðstoða áhöfn fiskiskipsins við að koma veiðarfærinu aftur um borð en sökum straums og sjólags óskaði fiskiskipið eftir því að varðskipið tæki það um borð til sín. Þór var kominn að bryggju á Ísafirði eftir hádegisbil í dag og áhöfn varðskipsins kom veiðarfærinu í land síðdegis.