Árni Johnsen, blaðamaður og fyrrverandi alþingismaður, lést í gær á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 79 ára að aldri.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Árni fæddist í Vestmannaeyjum þann 1. mars 1944. Foreldrar hans voru Poul C. Kanélas frá Detroit í Bandaríkjunum og Ingibjörg Á. Johnsen kaupakona. Hún átti síðar Bjarnhéðin Elíasson skiptstjóra og útgerðarmann í Vestmannaeyjum, er fram kemur á vef Alþingis.
Árni ólst upp í Vestmannaeyjum og starfaði þar sem kennari frá 1964 til 1965 og síðar í Reykjavík frá 1966 til 1967 eftir að hann hafði lokið prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1966. Hann var starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust árin 1966 og 1967. Þá starfaði Árni sem blaðamaður við Morgunblaðið á árunum 1967 til 1991 og sem dagskrárgerðarmaður fyrir Ríkisútvarpið og sjónvarpið frá stofnun þess.
Árni var fyrst kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi árið 1983. Hann var varaþingmaður á árunum 1988 til 1991 en náði aftur kjöri 1991 og sat til 2001. Hann fór síðan aftur á þing fyrir flokkinn í Suðurkjördæmi árið 2007 en hætti þingstörfum a´rið 2013.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir. Þau eignuðust soninn Breka en fyrir átti Árni tvær dætur með fyrri eiginkonu sinni, Margréti Oddsdóttur. Þær heita Helga Brá og Þórunn Dögg.