Embla Medical leggur til um 7,7 milljónir Bandaríkjadala til verkefnisins eða um einn milljarð króna, í formi stoðtækja frá Össuri, þjálfunar og ráðgjafar, eða 66% af heildarkostnaði verkefnisins. Íslensk stjórnvöld veita styrk til verkefnisins að upphæð 3,9 milljónir dala eða um hálfan milljarð íslenskra króna.
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að styrkja sérstakt endurhæfingarverkefni í Úkraínu sem miðar að því að útvega allt að eitt þúsund einstaklingum stoðtæki og aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Um er að ræða samstarf við samtökin Future for Ukraine, Emblu Medical, móðurfélag Össurar og stoðtækjamiðstöð á vegum Emblu Medical sem var opnuð formlega í Kænugarði í dag.
Þörfin fyrir stoðtæki í Úkraínu er sögð gríðarlega aðkallandi, en samkvæmt úkraínskum stjórnvöldum búa þar um 110 þúsund einstaklingar við skert lífsgæði vegna útlimamissis, þar af eru um 50 þúsund ný tilfelli frá upphafi innrásarstríðs Rússlands.

„Það er mjög kærkomið að geta orðið við ákalli úkraínskra stjórnvalda um stuðning með þessum hætti og veita þeim sem þjást hjálp við að endurheimta hreyfigetu sína og reisn á ný. Úkraína þarf nefnilega á öllum sínum borgurum að halda við enduruppbyggingu landsins sem berst fyrir tilveru sinni,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
„Við erum stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni, með svo dyggum samstarfsaðila, en Embla Medical hefur þegar sýnt í verki aðdáunarverðan stuðning við Úkraínu.“
Stuðningur við verkefnið, sem telst til framlaga til Úkraínu á sviði þróunarsamvinnu, fellur vel að þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu, þar sem m.a. er áréttað að stutt verði við verkefni sem úkraínsk stjórnvöld hafa kallað eftir.
Embla Medical leggur til um 7,7 milljónir Bandaríkjadala til verkefnisins í formi stoðtækja frá Össuri, þjálfunar og ráðgjafar, eða 66% af heildarkostnaði verkefnisins. Íslensk stjórnvöld veita styrk til verkefnisins að upphæð 3,9 milljónir dala, sem greiddur verður á þremur árum og rennur til samtakanna Future for Ukraine sem sjá um rekstur og framkvæmd verkefnisins ásamt stoðtækjamiðstöð Emblu Medical.

