Í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV þann 27. nóvember s.l. og voru foringjar launþega mættir í viðtal hjá Aðalsteini Kjartanssyni og kom fram í máli þeirra að Verkalýðsfélögin eru tilbúin til mikilla átaka á vinnumarkið ef að þess þarf í kjarasamningum. Enda sé hreyfingin fjárhagslegt stórveldi og geti vel greitt fólki laun fyrir að vera í verkfalli. Með því að greiða fólki laun með fjármagnstekjum verkfallssjóðanna eða úr vinnudeilusjóðum.
Þá sé líka hægt að setja fjármálakerfið í verkfall með því að skrúfa fyrir allt fjármagn frá lífeyrissjóðunum og lama þannig fjármálakerfið.
Ragnar Þór Ingólfsson bendir á að hann telji verkalýðshreyfinguna vel í stakk búna til að fara í átök. „Við skulum ekki gleyma því að verkalýðshreyfingin í gegnum tíðina hefur farið frá því að vera einhverskonar grasrótarsamtök yfir í að vera fjárhagslegt stórveldi. Ef við færum saman öll félögin væru þetta gríðarlega miklar upphæðir sem við hefðum til þess að fara í slíkar aðgerðir en ég hef meiri trú á því, ef að kemur til þess að við þurfum að fara í átök, að þá munum við gera það kannski í einhverskonar skærum með félögum okkar í öðrum stéttarfélögum þar sem við getum farið í vinnustöðvun og borgað fólki full laun fyrir og kannski notað til þess fjármagnstekjur verkfallssjóðanna okkar eða vinnudeilusjóðanna okkar.
Við erum líka aðilar að íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Við erum að borga hátt í 20 milljarða á ári í umsýslukostnað inn í fjármálakerfið. Og af hverju getum við ekki sett fjármálakerfið okkar í verkfall? Af hverju getum við ekki beitt áhrifum okkar inni í lífeyrissjóðakerfinu, sem að, beinum þá tilmælum til okkar stjórnarmanna að skrúfa fyrir allar fjárfestingar á meðan óvissa eða samningar eru lausir? Við eigum að nota öll tæki sem við mögulega getum og verkalýðshreyfingin er miklu, miklu sterkari, valdameiri og öflugri heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir,“ Segir hann.
Ragnar tekur dæmi: „Lágmarkslaun í dag eru 300 þúsund, útborgað eru þau 248 þúsund krónur. Í dag kostar upp undir 250 þúsund krónur að leigja tveggja herbergja íbúð. Fasteignamarkaðurinn, það er búið að keyra hann það mikið upp að hér er verið að selja, hér í nánasta nágrenni við Efstaleitið, tveggja herbergja íbúðir á hátt í 50 milljónir.“
,,Kröfurnar sem settar hafa verið fram fela í sér að laun hækki árlega um rúmar 40 þúsund krónur í þrjú ár, þar til lægstu laun verða 425 þúsund. Það þýðir rúmlega 40 prósent hækkun lægstu launa. Ragnar segir þetta einfaldlega kostnaðinn við að lifa. „Hvað kostar að lifa á Íslandi? Hvað kostar að geta lifað með mannlegri reisn fyrir dagvinnulaun? Og þegar við setjum upp kostnaðarútreikning, á því sem kostar að lifa og tökum húsnæðiskostnaðinn með. Þá er þetta upphæðin, 425 þúsund, sem kostar að lifa,“ segir hann.
„Og þetta er okkar grunnkrafa og ef að við getum ekki verið sem hreyfing sammála um það að við séum ekki að fá greidd laun, eða að það sé ekki verið að greiða laun, sem duga ekki til framfærslu, þá eigum við einfaldlega að finna okkur eitthvað annað að gera.“
Sólveig Anna Jónsdóttir segist trúa því að nú sé sá tímapunktur að fólk sé komið með nóg.
„Ég held að almennt sé bara fólk komið með nóg af því og sé komið á þann stað að það svona vill sem samfélag, held ég, að taka þátt í því, að já, bara svona, byggja upp samfélag sem við getum bara öll verið stolt af því að standa að. Ég held að manneskja þurfi bara að vera í einhverri svona veruleikaafneitun ef að hún ætlar ekki að horfast í augu við það að á Íslandi ríkir bara mjög mikil misskipting og stéttaskipting. Ég hef sjálf aldrei farið í verkfall en ég hugsaði oft þegar ég var, hérna, að vinna og fékk ömurleg laun, þá var ég oft að hugsa að það væri nú fínt að senda okkur konurnar í verkfall, eða bjóða okkur upp á það, eða hvernig ég á að orða það, til þess að hérna sýna fram á mikilvægi okkar og búa til þær aðstæður að óumflýjanlega yrði að mæta kröfum okkar vegna þess að annars myndi allt samfélagið stoppast,“ segir Sólveig.
„Verkalýðshreyfingin hefur sýnt fram á það með mjög sannfærandi hætti að hér hefur orðið það sem við köllum stóra skattatilfærslan, þannig að ríkasta 1 prósentið hefur fengið skattaafslátt sem nemur 8 prósentum síðustu 25 árin á meðan þeir tekjulægstu hafa, skattar á þá hafa hækkað um 12 prósent. Ég hef einu sinni komið að samningaborðinu þar sem voru 2 til 3 prósent til skiptanna og ekki eyrir meir og allt færi til andskotans ef það færi upp fyrir það. Það var samið um upp undir 20 prósent launahækkanir þá. Ég býð ekki í ástandið í dag, hjá vinnandi fólki, ef við hefðum gengið að 2 til 3 prósentum á þeim tíma. Það væri svakalegt ástand. Við erum að fara fram á ákveðnar grundvallarbreytingar. Við erum að fara fram á að fólk geti lifað af launum sínum. Ég hef ekki heyrt atvinnurekendur eða stjórnvöld koma með einhverjar aðrar lausnir í því og ef þú kemur ekki með lausnir hvernig við eigum að auðvelda fólki að lifa af hérna heldur bara gagnrýnir kröfur sem eru fram komnar, þá ert þú frekar gagnslaust stjórnvald og ósannfærandi atvinnurekandi.“ Segir Drífa Snædal.
Hægt er að lesa um og horfa á þáttinn á RÚV: