Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur auglýst fjórar stöður skrifstofustjóra í ráðuneytinu lausar til umsóknar í tengslum við breytingar á skipulagi ráðuneytisins sem taka munu gildi 1. janúar 2026.
Á meðal þess sem breytingarnar fela í sér er að í fyrsta skipti frá árinu 2012 verður nú rekin sérstök skrifstofa orkumála í stjórnarráðinu, en á undanförnum árum hafa orkumálin verið hluti verkefna á skrifstofum með fleiri meginhlutverk.
Skipuritsbreytingunum er ætlað að stytta boðleiðir og skerpa á forgangsröðun og verkaskiptingu í ráðuneytinu þannig að áherslumál ríkisstjórnarinnar í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum komist hratt til framkvæmda.
Skrifstofan sinnir löggjöf sem varðar orkumál, verkefnum tengdum raforkuframboði og -öryggi, raforkumarkaði, viðskiptavettvangi með raforku, raforkueftirliti, málefnum flutnings- og dreifikerfa og jarðhita. Þá sinnir skrifstofan einnig verkefnum sem lúta að jöfnun kostnaðar við húshitun og dreifingu raforku, hitaveitu, jarðhitaleit og forystu á sviði orkusparnaðar og -nýtni.
Skrifstofa náttúru og minjaverndar
Skrifstofan sinnir löggjöf á sviði náttúru og minjaverndar, verkefnum tengdum náttúruvernd á landi og í hafi, minjavernd, uppbyggingu og rekstri innviða á friðlýstum svæðum, landgræðslu og skógrækt, veiðistjórnun, líffræðilegri fjölbreytni, vernd í hafi og verndar- og orkunýtingaráætlun.. Þá sinnir skrifstofan verkefnum er varða náttúruvá, þ.m.t. gerð vöktunar- og rannsóknaráætlana og hættumats ásamt framkvæmdum ofanflóðasjóðs.
Skrifstofan sinnir löggjöf á sviði loftslagsmála, verkefnum tengdum loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, eftirfylgni skuldbindinga samkvæmt Parísarsamningnum, gerð og eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, auk áætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum og stefnumótun í loftslagsmálum að öðru leyti.
Skrifstofan sinnir löggjöf á sviði umhverfisgæða og verkefnum sem snúa að stjórn vatnamála, hollustuháttum og mengunarvörnum, hljóðvist, loftgæðum, vörnum gegn mengun hafs og stranda, fráveitum, efnamálum, erfðabreyttum lífverum, umhverfisábyrgð, umhverfismati framkvæmda og áætlana. Þá sinnir skrifstofan einnig verkefnum sem tengjast innleiðingu hringrásarhagkerfis.
Verkefni, ábyrgð og menntunar- og hæfniskröfur
Skrifstofustjóri stýrir hverri fagskrifstofu undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra og sinnir daglegum rekstri hennar. Viðkomandi ber ábyrgð á faglegu starfi og verkefnum skrifstofunnar, þ. á m. samhæfingu við aðrar skrifstofur innan ráðuneytisins og önnur ráðuneyti eftir þörfum.
Hlutverk fagskrifstofanna er að koma áherslum ríkisstjórnar og yfirstjórnar ráðuneytisins í framkvæmd með stefnumótun, innleiðingu, framkvæmd, eftirfylgni og árangursmati innan málaflokka ráðuneytisins. Skrifstofurnar bera jafnframt ábyrgð á þeim alþjóðasamningum og erlendu samstarfi sem undir þær heyra, ásamt innleiðingu og eftirfylgni með gerðum ESB.
Sótt er um á embættin á starfatorg.is, þar sem nánari upplýsingar um menntunar og hæfniskröfur er að finna. Umsóknarfrestur er til og með 21. október 2025.
Áhugasamir einstaklingar óháð kyni eru hvattir til að sækja um.
Ráðgefandi hæfnisnefnd skipuð af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mun meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til ráðherra.
Nánari upplýsingar um embættin veitir Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri stefan.gudmundsson@urn.is

