Samtök ferðaþjónustunnar hafa undanfarna þrjá mánuði átt í samskiptum við stjórnvöld um mögulegar lausnir á aðkallandi vanda ferðaskrifstofa.
Samkvæmt lögum um pakkaferðir og samsvarandi Evrópulöggjöf eru ferðaskrifstofur skyldugar til að endurgreiða neytendum innan 14 daga vegna ferðar sem fellur niður, ef krafa er gerð um það. Um alla Evrópu glíma ferðaþjónustufyrirtæki nú við stórkostlegan lausafjárvanda sem hefur stöðvað greiðslur og endurgreiðslur þeirra á milli. Ferðaskrifstofur eru eini hlekkur ferðaþjónustukeðjunnar sem settar eru undir sérstaka lagaskyldu um endurgreiðslu og ljóst að þær geta ekki staðið undir slíkum endurgreiðslum einar fyrirtækja.
Pakkaferðalöggjöfin er sett með það í huga að tryggja hag neytenda þegar brestur verður á framkvæmd einstakra ferða eða þegar einstök fyrirtæki lenda í vanda. Löggjöfin tekur ekki á aðstæðum eins og nú eru fyrir hendi, þar sem öll keðja ferðaþjónustunnar á öllu EES svæðinu hefur stöðvast. Augljóst er að við slíkar aðstæður eru forsendur löggjafarinnar algerlega brostnar. Fjölmörg Evrópuríki hafa gripið til aðgerða vegna vandans á þeim grundvelli. Margar þeirra aðgerða brjóta í bága við Evrópulöggjöfina, enda um fordæmalausar aðstæður að ræða sem löggjöfin nær ekki utan um.
Á undanförnum 10 vikum hafa Samtök ferðaþjónustunnar átt í nær stöðugum samskiptum við stjórnvöld vegna málsins og hafa veitt upplýsingar og lagt fram tillögur að nokkrum mismunandi aðgerðum sem orðið gætu til lausnar á þessum fordæmalausa vanda. Tillögur SAF hafa meðal annars haft hliðsjón af aðgerðum annarra Evrópuríkja.
Tillögurnar hafa meðal annars falið í sér lengingu endurgreiðslutímabilsins, að leyfð verði útgáfa inneignarnóta í stað endurgreiðslu í peningum, að settur verði upp tímabundinn tryggingasjóður að danskri fyrirmynd sem fé verði veitt í gegnum til að tryggja endurgreiðslur eða að veitt verði sérstök endurgreiðslulán til ferðaskrifstofa.
Alþingi hefur haft til umfjöllunar frumvarp frá ferðamálaráðherra sem nú liggur fyrir að hefur ekki nægan stuðning þingmanna.
Á undanförnum vikum hefur verið dregin upp skörp lína í umræðum á Alþingi og í fjölmiðlum milli hagsmuna ferðaskrifstofa og hagsmuna neytenda. Staðreyndin er hins vegar sú að bæði neytendur og ferðaskrifstofur hafa mikla hagsmuni af skynsamlegri lausn á þessum aðkallandi vanda. Eins og svo oft áður er engin fullkomin lausn í boði, enda aðstæður fordæmalausar. Rétt er að taka fram að SAF hafa átt í samskiptum við neytendasamtökin og fundið fyrir góðum samhljómi um mikilvægi lausnar á vandanum.
Ljóst er að eftir þrjá mánuði er tíminn til aðgerða nú á þrotum, lögsóknir gegn ferðaskrifstofum eru hafnar að fullum þunga og ljóst að hver dagur færir einstök fyrirtæki nú nær rekstrarstöðvun eða gjaldþroti.
Samtök ferðaþjónustunnar leggja áherslu á þá staðreynd að núverandi ástand tryggir ekki hagsmuni neytenda umfram þá lausn sem lögð er til í frumvarpi ferðamálaráðherra. Raunveruleikinn er að margar ferðaskrifstofur eiga ekki lausafé til að endurgreiða öllum viðskiptavinum sínum samkvæmt núverandi reglum. Því mun núverandi ástand að óbreyttu óhjákvæmilega leiða til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrota í þeim hópi fyrirtækja og þannig auka verulega líkurnar á því að neytendur muni þurfa að leita endurgreiðslu úr tryggingum viðkomandi ferðaskrifstofa.
Samtök ferðaþjónustunnar telja að á síðustu þrem mánuðum hafi verið færð nægilega skýr rök fyrir sértækum aðgerðum vegna vandans. Samtökin lýsa verulegum vonbrigðum með það að Alþingi og ríkisstjórn sjái sér ekki fært að koma til móts við þennan vanda ferðaskrifstofa og neytenda á neinn hátt, jafnvel þótt fjöldi dæma um skýrar aðgerðir vegna sama vanda liggi fyrir í fjölda annarra Evrópuríkja. Segir í yfirlýsingu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
https://gamli.frettatiminn.is/logmannsstofan-malsvari-rekur-innheimtumal-a-hendur-ferdaskrifstofu-vegna-ferdar-menntaskolans-a-akureyri/