Aðeins 17% þjóðarinnar eru andvíg veiðigjaldafrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi, ef marka má niðurstöður nýjustu könnunar Prósents. Þá er ríflegur meirihluti þjóðarinnar hlynntur frumvarpinu, eða 69%, en 14% eru hvorki hlynnt né andvíg.
Einungis í tilfelli kjósenda Sjálfstæðisflokksins mælist andstaða við frumvarpið meiri en stuðningur. Könnunin var framkvæmd dagana 19. júní til 3. júlí en úrtakið var 1.950 manns og svarhlutfallið 50%.
Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú frumvarpi atvinnuvegaráðherra um breytingu á lögum um veiðigjald?

Fleiri karlar en konur eru á móti frumvarpinu, eða 23% karla á móti 12% kvenna. Fleiri konur segjast hvorki hlynntar né andvígar, eða 19% kvenna á móti 8% karla, en svipað hlutfall kynjanna styður frumvarpið eða 69% og 70%.
Fleiri andvígir á landsbyggðinni en meirihluti þó hlynntur
Íbúar landsbyggðarinnar eru mótfallnari frumvarpinu en höfuðborgarbúar, eða 23% gegn 12-13%. Meirihluti landsbyggðarinnar styður þó frumvarpið eða um 62%.
Hlutfallið þeirra á höfuðborgarsvæðinu sem styður frumvarpið er aðeins hærra, eða um 73-74%.
Mesta andstaðan meðal Sjálfstæðismanna
Prósent sundurliðaði tölurnar jafnframt eftir fylgi flokkanna en athygli vekur að aðeins í hópi kjósenda Sjálfstæðisflokksins má finna fleiri sem eru á móti frumvarpinu en með. Þannig mælist andstaðan við frumvarpið um 63% í þeim kjósendahópi en aðeins 22% segjast hlynntir því. 16% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru hvorki hlynntir né andvígir.
Næstmestu andstöðuna við frumvarpið má finna meðal kjósenda Miðflokksins. Þar eru þó fleiri hlynntir frumvarpinu en andvígir, eða 43% gegn 42%. 15% segjast hvorki styðja frumvarpið né vera mótfallin því.
Stuðningur við frumvarpið mælist mun meiri meðal kjósenda annarra flokka en hann er mestur meðal Samfylkingar- og Viðreisnarfólks.
72,3%, þjóðarinnar vilja auka veiðiheimildir til strandveiða