Í grein á Feykir.is þann 2. júlí undir yfirskriftinni „Nauðsynlegar leiðréttingar“ eftir framkvæmdastjóra FISK Seafood er of mikið af hálfsannsleik til að því sé ekki svarað. Þó skal tekið fram að ég ætla ekki að standa í ritdeilum við hann enda taldi ég eftir ágætan fund okkar í fyrra að smábátamenn þyrftu ekki að reikna með þeim aðgerðum sem fyrirtækið fer nú í gegn hagsmunum þeirra. En lengi skal manninn reyna. Hér á eftir verður farið yfir helstu staðreyndir sem tengjast þessu máli.
Allt frá upphafi strandveiða 2009 var það stefna FISK að taka ekki til vinnslu þann afla smábáta sem landað væri á Króknum. Engin ósk eða krafa var mér vitanlega komin fram hjá núverandi yfirmönnum FISK um breytingar á þessu fyrirkomulagi fyrr en kæra FISK var sett fram 11. febrúar sl. um að ráðuneytið samþykkti ekki tillögur sveitarstjórnar Skagafjarðar um úthlutun byggðakvóta í ár. Við í Drangey höfum aldrei lagst gegn því að afli báta okkar væri unninn hjá FISK enda fengist eðlilegt verð fyrir slíkan afla.
Svo lengi sem ég hef fylgst með hefur það verið stefna og skoðun sveitarstjórnar að það þjónaði hagsmunum samfélagsins best að byggðakvótinn væri sem mest veiddur af smábátum enda smábátaútgerð mikilvægur þáttur í mannlífi sjávarbyggða landsins. Af þessum ástæðum hefur sveitarstjórn sl. ca. 15 ár lagt til og fengið staðfest af ráðuneytinu, að togarar Sauðárkróks (FISK) fengu í sinn hlut ca 10% af byggðakvótanum (14 tonn) hvor en smábátaflotinn fengi um 80%.
Nú gerir framkvæmdastjórinn því skóna að þetta sé lögbrot sem sveitarfélagið og ráðuneytið hafi sameinast um að fremja árum saman. „Ekki verði lengur við það unað að afli smábátanna sé ekki settur í vinnslu hér á Sauðárkróki eins og skýr krafa er gerð um í lögum um byggðakvótann. Á þessa alvarlegu brotalöm var ráðuneytinu bent,“ eins og framkvæmdastjórinn segir í grein sinni. Hér er FISK komin í hlutverk lögreglunnar!
Undir yfirskini vinnsluskyldu á byggðakvótanum og mótframlagi hans vill nú FISK fá helming af byggðakvóta Sauðárkróks til að veiða á sín skip og telur það sérstaka sáttahönd að krefjast þess ekki að fá hann allan. Um vinnsluskyldu á byggðakvótanum er enginn ágreiningur milli FISK og smábátaeiganda en öðru máli gegnir með mótframlagið sem er annaðhvort í formi grásleppuafla eða strandveiðiafla. Grásleppa er ekki unnin hjá FISK og til skamms tíma vildi FISK ekki strandveiðiafla til vinnslu eins og áður sagði. Er ég ekki í vafa um að hægt hefði verið að semja um strandveiðilaflann til vinnslu hjá FISK ef sú ósk hefði komið fram um það fyrir þessa vertíð.
Að lokum get ég ekki látið kyrrt liggja að gera athugasemdir við þær dylgjur sem fram koma í fyrrnefndri kæru FISK varðandi það að smábátamenn séu að leigja frá úthlutaðan byggðavóta. Þetta á sér tvær eðlilegar skýringar. Sú fyrri er að aðeins um 60% af byggðakvótanum er þorskur, en afgangurinn er ýsa, ufsi, karfi, steinbítur, keila og langa. Þessar tegundir veiðast lítið sem ekkert á handfæri eða eru ekki til á miðum smábáta sem sækja héðan . Menn reyna því að að leigja þennan hlut byggðakvótans, helst fyrir þorsk, ef hann fæst ekki, þá í beinni leigu. Í fyrra varð ég t.d. að leigja frá mér um 1 tonn af ýsu, 1600 kg af ufsa, 500 kg af karfa og um 300 kg af steinbít/ keilu/löngu og fékk fyrir það alls um 80.000 kr.! Það er álíka verðmæti og fæst nú fyrir 200 kg. af sæmilegum þorski!
Seinni „leiguaðferðin“ er þegar nokkrir sjómenn hér á Krók sem eiga tvo báta, fá byggðakvóta á þá báða en sameina veiðina á annan bátinn. Það færist í bókahaldi Fiskistofu sem óskilgreind leiga á byggðakvótanum. Þetta gerir lögmaður FISK að sérstöku efni til að tortryggja smábátasjómenn og veiðar þeirra á byggðakvótanum.
Magnús Jónsson
formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar