„Minni baráttu ætla ég að halda áfram innan raða Sjálfstæðisflokksins. Þar er góður málefnalegur samhljómur og þar tel ég að kraftar mínir muni nýtast best.“ Segir Birgir Þórarinsson sem nú er genginn í Sjálfstæðisflokkinn og birtir grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir tilefni greinarinnar að gera grein fyrir þeirri ákvörðun að segja skilið við þingflokk Miðflokksins og ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Ákvörðunin sé þungbær, en hún eigi sér nokkurn aðdraganda sem hafi leitt til þess að traust milli hans og forystu flokksins sé brostið.
Í Morgunblaðinu segir Birgir að málið megi rekja til uppákomunnar á Klaustur bar árið 2018. Sjálfur hafi hann fordæmdt framferði samflokksmanna sinna þar, og segist hann hafa vonað að um heilt hafi gróið síðan. Annað hafi komið á daginn. Eftir mikla umhugsun hafi hann ákveðið að hann ætti ekki lengur samleið með þingmönnum Miðflokksins.
Birgir ráðfærði sig við trúnaðarmenn Miðflokksins í Suðurkjördæmi, þar á meðal Ernu Bjarnadóttur sem var í öðru sæti lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Hún er varamaður Birgis á þingi, en verður þingmaður Sjálfstæðisflokksins ef hún tekur sæti Birgis.
Hann segist hafa talið að málinu væri lokið er undirbúningur hófst vegna kosninga í haust. Fljótlega hafi komið í ljós að svo var ekki og að skipulögð aðför gegn sér hafi farið fram af hálfu áhrifafólks innan flokksins til að halda honum frá efsta sætinu, að hans sögn.