Þrír létust í gær á vinsælu ferðamanneyjunni Tenerife í jafn mörgum aðskildum slysum sem rekja má til mikils öldugangs og sjávarhæðar. Að minnsta kosti fimmtán til viðbótar slösuðust.
Fjallað er um slysin á vef mbl. í dag og þar segirr að stór alda hafa hrifið með sér tíu manns af bryggju í borginni Puerto de la Cruz og að lögregla og nokkrir sem urðu vitni að atvikinu hafi bjargað fólkinu úr sjónum, en ein kona lést eftir að hafa fengið hjartaáfall.
Þá slösuðust þrír aðrir alvarlega og voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Fram hefur komið í fjölmiðlum að um franska ferðamenn hafi verið að ræða.
Þá var björgunarþyrla kölluð til í La Guancha á norðurhluta eyjunnar eftir að maður féll í sjóinn við ströndina, en hann var úrskurður látinn á vettvangi.
Skömmu áður hafði maður fundist meðvitundarlaus á floti í sjónum við El Cabezo sunnarlega á Tenerife. Strandverðir og heilbrigðisstarfsfólk reyndi endurlífgun á vettvangi, en hún bar ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn. Fleiri alvarleg atvik sem tengjast öldugangi hafa verið tilkynnt og vitað er til að fólk hafi slasast.
Viðvörun hefur verið gefin út fyrir Kanaríeyjarnar allar, þar á meðal Tenerife, vegna hættu á miklum öldugangi. Hafa yfirvöld hvatt fólk til að fara sérstaklega varlega við strandlengjuna norðanmegin á eyjunni og varast að vera nálægt bryggjum. Segir í frétt Morgunblaðsins.
Reuters fréttastofan hefur einnig fjallað ítarlega um slysin sem og aðrir erlendir fjölmiðlar

