,,Heilindi dómstóla og ákæruvalds þurfa að vera hafin yfir vafa“
Samherji hefur lagt fram kvörtun vegna dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, til nefndar um dómarastörf eftir að dómarinn samþykkti að héraðssaksóknari ætti rétt á öllum gögnum frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Samherji lagði líka fram kvörtun til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna Finns Þórs Vilhjálmssonar, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara. Þetta kemur fram á heimasíðu Samherja í dag:
,,Í úrskurði Landsréttar hinn 28. janúar síðastliðinn gerði rétturinn sérstakar aðfinnslur við að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði samþykkt kröfu héraðssaksóknara um afhendingu gagna um Samherja í vörslum endurskoðunarfyrirtækisins KPMG og heimilað húsleit án þess að nein rannsóknargögn lægju til grundvallar kröfunni. Héraðsdómari tók kröfuna til greina án nokkurra sönnunargagna og greindi ranglega frá því í úrskurði og þingbók að slík gögn hefðu legið frammi við uppkvaðningu úrskurðarins.
Málið kom upp í desember síðastliðnum þegar héraðssaksóknari krafðist þess að KPMG og dótturfélagi þess yrði gert skylt að afhenda embættinu upplýsingar og gögn vegna þjónustu umræddra fyrirtækja við Samherja og dótturfélög í samstæðu fyrirtækisins á árunum 2011 til 2020 vegna vinnu við reikningsskil félaganna. Ekki er hér um að ræða bókhaldsgögn, eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum, heldur er um að ræða svokölluð endurskoðunargögn sem endurskoðendum er skylt að geyma, lögum samkvæmt, í sjö ár hið minnsta.
KPMG lét sig ekki málið varða í fyrstu
Með kröfu sinni krafðist héraðssaksóknari þess að lögbundinni þagnarskyldu sem hvílir á endurskoðendum yrði aflétt. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um afhendingu gagnanna hinn 3. desember 2020. Með úrskurðinum var í reynd ekki aðeins rofinn trúnaður milli endurskoðenda og fyrrverandi skjólstæðinga þeirra heldur einnig trúnaður lögmanna enda beindist krafan að gögnum sem voru í vörslum bæði endurskoðenda og lögmanna hjá KPGM og dótturfélögum.
KPMG virðist í fyrstu ekkert hafa látið sig málið varða þegar endurskoðendur félagsins fengu spurnir af því. Samherji fékk fyrst vitneskju um þetta mál í janúar síðastliðnum enda krafðist héraðssaksóknari þess að krafan hlyti meðferð fyrir dómi án þess að þeir aðilar sem hún beindist að yrðu kvaddir á dómþing.
Þegar vitneskja um málið lá fyrir beindi Samherji kæru til Landsréttar þar sem þess var krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Í úrskurði Landsréttar, sem var kveðinn upp 28. janúar, var kærunni vísað frá því Samherji hefði ekki átt aðild að málinu fyrir héraðsdómi, aðeins KPMG. Í úrskurði Landsréttar eru hins vegar gerðar aðfinnslur við málsmeðferð héraðsdóms. Þar segir að samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms hafi rannsóknargögn málsins legið fyrir við fyrirtöku þess. Rannsóknargögnin hafi hins vegar ekki fylgt með kærunni til Landsréttar. Þegar Landsréttur hafi kallað eftir gögnunum hafi héraðsdómur upplýst að engin gögn hefðu legið frammi við fyrirtöku málsins. Þetta þýðir í reynd að dómarinn í málinu, Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, hafði engin sönnunargögn til stuðnings kröfu héraðssaksóknara þegar hún kvað upp úrskurð sinn. „Í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt fyrir því að fallast á kröfu sóknaraðila hefði héraðsdómara verið rétt að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar. Er aðfinnsluvert að svo var ekki gert,“ segir í úrskurði Landsréttar.
Þá ber að vekja sérstaka athygli á því að héraðsdómara var ekki heimilt að fjalla um kröfu saksóknara, án þess að þeir sem hún beindist að yrðu kvaddir á dómþing, nema dómarinn teldi „nægilega rökstutt“ að vitneskja um aðgerðina gæti spillt fyrir rannsókn. Dómari í málinu taldi sig bæran til þess taka ákvörðun um þetta án sönnunargagna. Þá er fjarstæðukennt að vitneskja um aðgerðina hefði getað spillt fyrir rannsókn varðandi gögn í vörslum endurskoðenda enda hvílir lögbundin skylda á þeim að geyma þau gögn sem hér um ræðir, líkt og getið er framar.
Vinnubrögð sem hljóta að kalla á viðbrögð
Þau vinnubrögð sem hér er lýst og Landsréttur gerir aðfinnslur við hljóta að kalla á viðbrögð frá hagsmunasamtökum bæði endurskoðenda og lögmanna. Þá hlýtur KPMG að líta það alvarlegum augum þegar rofinn er mikilvægur trúnaður endurskoðenda og lögmanna við skjólstæðinga sína. Sú staðreynd að Finnur Þór Vilhjálmsson, fulltrúi héraðssaksóknara, lagði ekki fram nein sönnunargögn, þegar krafa hans um afhendingu gagna var tekin fyrir hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en hélt því engu að síður fram gegn betri vitund að slík gögn lægju frammi, hlýtur jafnframt að gefa tilefni til viðbragða hjá ríkissaksóknara sem hefur lögbundið eftirlitshlutverk um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara.
Kvörtun hefur verið beint til nefndar um dómarastörf vegna vinnubragða Ingibjargar Þorsteinsdóttur héraðsdómara í framangreindu máli. Þá hefur einnig verið kvartað til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna framferðis Finns Þórs Vilhjálmssonar saksóknara. Það var talið mikilvægt og brýnt að koma upplýsingum á framfæri við þessar nefndir, með þar til bærum leiðum, því heilindi dómstóla og ákæruvalds þurfa að vera hafin yfir vafa.“ Segir á vef fyrirtækisins.