Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri er jafnframt formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Laun formanns sambandsins nema alls tæpum 870 þúsund krónum á mánuði, eða sem nemur hálfu þingfarakaupi auk fastra akstursgreiðslna. Samtals eru laun hennar því um fjórar milljónir á mánuði eða 48 milljónir á ári.

Vilhjálmur Birgisson er undrandi á þessum ofurlaunum og segir; ,,Er þetta ekki „helvíti“ vel í lagt að vera með heildarlaun sem nema tæpum fjórum milljónum á mánuði? Laun Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra vegna formennsku hennar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa hátt í þrefaldast frá árinu 2023. Hafa farið úr 285.087 kr. í 868.671 kr. eða sem nemur 170% hækkun á tveggja ára tímabili.
Ég skil bara ekki hvernig sé hægt að vera með tæpa milljón fyrir formennsku þar sem fundað er rétt rúmlega einu sinni í mánuði og væntanlega eru allir þessir fundir á hefðbundnum dagvinnutíma. Eitt er víst að þessi hækkun hjá formanni SÍS er ekki í nokkrum takti við það sem annað launafólk hefur fengið í launahækkun á umræddu tímabili.
Hvaða fordæmi er Samband íslenskra sveitafélaga að gefa með svona 170% launahækkun og það í ljósi þess að mörg sveitafélög berjast í bökkum alla daga við að ná endum saman.
Ekki má heldur gleyma að sveitafélög hafa á liðnum árum og áratug leitað „hagræðingar“ hjá sér og þar hefur ræstingafólk orðið illa fyrir barðinu, enda hafa sveitafélög útvistað ræstingu yfir til ræstingafyrirtækja eins og enginn sé morgundagurinn. Fréttir síðustu vikna sýna að ekki er nú verið að fara vel með fólkið sem þar starfar. En skella 170% hækkun á formann sambandsins fyrir rétt rúman eitt fund á mánuði er ekkert mál!
Eru tæpar fjórar milljónir á mánuði í laun og 170% hækkun fyrir formennsku hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í anda þess sem flokkur borgarstjóra kennir sig við sem er félagshyggja, réttlæti og jöfnuður. Spyr sjá sem ekki veit!“