Björgunarsveitin Ísólfur var sömuleiðis kölluð út en samband náðist að lokum við bátinn.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu laust eftir hádegi um að handfærabátur væri horfinn úr ferilvöktun. Einn var um borð en síðast var vitað um bátinn undan Stóranesi, sunnan Glettinganess. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar reyndi ítrekað að ná sambandi við skipverjann í gegnum fjarskipti og farsíma en án árangurs. Sömuleiðis hafði stjórnstöðin samband við togara í grenndinni sem var beðinn um hafa samband við bátinn en það reyndist einnig árangurslaust.
Því var ákveðið að kalla björgunarsveitina Ísólf frá Seyðisfirði og björgunarskipið Árna Vilhjálmsson út til leitar sem og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. Klukkan 13:51 náðist loks samband við þann sem var um borð sem sagði að þar væri allt með kyrrum kjörum og gaf þær skýringar að sjálfvirka staðsetningartækið hafi dottið út. Í kjölfarið var flugvélinni Sif og björgunarskipinu Árna Vilhjálmssyni snúið við og útkallið afturkallað.