Núna er tækifæri til að hlúa að mannlegum tilfinningum. Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman. Þær fréttir berast að heimilisofbeldi, ólga innan fyrirtækja og félagasamtaka færist í aukana. Við erum óörugg og sjáum enn ekki út úr þoku veirufaraldursins sem skekur þjóðina og veröldina alla. Við trúum því að þokunni létti, líkt og alltaf þegar þoka gengur yfir og þá mun birtast breyttur heimur vegna þess undangengna.
Þetta er einmitt tíminn til að staldra við og leiða hugann að okkur sjálfum sem manneskjum og hvernig við höfum umgengist lífið hingað til. Vald er orð sem lætur illa í mínum munni en þjónusta aftur á móti mun betur. Enda byggir lýðræðið á þeim grunni að þeir sem eru kosnir til (valda eða þjónustu) axli þá ábyrgð sem lýðræðið leggur þeim á herðar. Framfarir á sviði tækninnar eru gríðarlegar sem gerir okkur kleift að leysa verkefni sem áður voru óyfirstíganleg. Samt er lífið alltaf að færa okkur sönnur á því að tæknin þarf að takast á við óvænta hluti. Maðurinn er núna glíma við veiru sem sett hefur samfélög jarðarinnar á hliðina sem hægir á öllum áformum.
Í þessum hægagangi langar mig að velta upp sjúkdómi sem mannkynið hefur glímt við í árhundruð, ef ekki lengur. Alkóhólismi sem í dag er oftar kallaður fíknsjúkdómur vegna þeir fjölmörgu hugbreytandi fíkniefna sem í boði eru og gerir vandamálið víðfermara en grunnurinn er sá sami. Fyrir rúmum mannsaldri síðan voru læknavísindin ráðþrota um hvernig hjálpa ætti drykkjusjúklingum. Upp úr 1930 urðu til samtök sem byggðust á því að tveir eða fleiri drykkjumenn sem vildu losna frá valdi (Bakkusar) báru saman reynslu sína styrk og vonir hvor við annan, og viti menn þetta virkaði. Þeir fóru að finna að fíknin lét undan. þarna urðu AA samtökin til og 12 reynsluspor auk erfðavenja samtakanna sem síðan hafa breiðst um heim allan með undraverðum árangri.
Margir læknar hafa æ síðan vísað fíknsjúklingum á þessi samtök og á þær meðferðir sem orðið hafa til og byggja meðferð á þessum grunni. Mikil breyting hefur átt sér stað bæði í neyslu, efnum og meðferðum. Læknar, sálfræðingar, geðlæknar, félagsfræðingar og fleiri fagaðilar hafa komið að fíknimeðferðum og er það vel. En grunnurinn hefur verið sá sami. Sjúklingurinn þarf að finna að hann er ekki einn í heiminum og hjálp er í boði. Inni í meðferðum eru líka AA fundir líkt og úti í samfélaginu. Þróun sem orðið hefur og leitt til meiri fagmennsku og aukinnar þekkingar er nauðsynleg að mínu mati en grunnurinn þarf að vera hinn sami.
Í fréttum undanfarið hafa vandræði hjá SÁÁ verið áberandi. Þar hefur fjárskortur hamlað aðgengi í meðferð í mörg ár og er biðlistinn núna um 600 manns. Nú blasir við enn meiri fjárskortur vegna veiru faraldursins og hefur komið til uppsagna. þar hefur fagfólki verið sagt upp og koma þá upp átök, skiljanlega. Ég skora á heilbrigðisráðherra að bregðast við þessum vanda líkt og yfirvöld eru að bregðast við fjárhagsvanda svo þessi þjónusta geti gengið. Ég fékk svar við fyrirspurn frá heilbrigðisráðherra á dögunum. Spurningarnar voru tvær:
1. Hyggst ráðherra leita leiða til þess að eyða biðlistum á Sjúkrahúsinu Vogi? Ef svo er, hverjar eru fyrirætlanir ráðherra í þeim efnum?
Svar ráðherra: Til að nýta þjónustu heilbrigðiskerfisins sem best er mikilvægt að vanda aðgangsstýringu að þjónustu. Æskilegt er að á grundvelli mats á þörf sé veitt heilbrigðisþjónustu sem best er mikilvægt að vanda aðgangsstýringu að þjónustu. Hluti þeirra sem eru á biðlista eftir innlagnaþjónustu á Vogi hafa sjálfir skráð sig á hann, án undangengins faglegs mats á því hvort viðkomandi þurfi á innlagnaþjónustu að halda. Til að taka megi vel ígrundaðar ákvarðanir á grundvelli biðlista þarf að liggja fyrir faglegt mat þess efnis að allir á biðlistanum hafi raunverulega þörf fyrir þjónustu sem um ræðir og að sú þjónusta sé sú sem best hentar hverju sinni. Með slíku fyrirkomulagi endurspegla biðlistar raunverulega þörf á þjónustu. Í mars 2020 voru 530 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vogi af þeim voru 115 komnir með innlagnardag á næstu þremur vikum. Að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem skráðir er á biðlista á Vogi ákveða sjálfir að nýta ekki þá þjónustu af ýmsum ástæðum. Ráðherra mun leitast við að veita öllum sem þess þurfa þjónustu eftir sem stysta bið. Hann leggur jafnframt áherslu á að biðlistar sýni á markvissari hátt raunverulega þjónustuþörf og að þar séu aðeins þeir sem þurfa og ætla að nýta sér þjónustuna.
2. Hver væri fjárhæð þess framlags sem SÁÁ þyrfti til rekstrar Vogs til þess að geta eytt biðlistum?
Svar ráðherra: Fjárveitingar til SÁÁ eru bundnar við fjármálaáætlun og fjárlög hverju sinni. Fjárveiting til SÁÁ var hækkuð varanlega í fjárlögum fyrir árið 2019 um 150 miljónir kr. Framlag til SÁÁ á fjárlögum 2020 eru 1.126, 8 milljónir. kr. Til þess að geta svarað þessum tölulið fyrirspurnarinnar þyrfti að koma á faglegri aðgangsstýringu varðandi skráningu á biðlista.
Mig rak í rogastans við þessi svör, en þau voru samt í takt við það sem mig grunaði eftir fyrri tilraunir mínar við rökræður við heilbrigðisráðherra.
Síðan þessi svör ráðherra bárust hefur veirufaraldurinn dunið yfir og ástandið versnað til muna.
Það fer enginn í meðferð að nauðsynjalausu. Fíknsjúkdómar hafa ekki einungis afleiðingar fyrir sjúklinginn heldur fjölda annarra. Afleiðingar fíknar geta verið hroðalegar en sem betur fer er til lausn, fé sem varið er til samtaka eins og SÁÁ skilar sér margfalt til baka í bættum einstaklingum og nýtum þjóðfélagsþegnum.
Sigurður Páll Jónsson er Þingmaður Miðflokksins