Rýma Grindavík í dag og kjósa Katrínu á morgun? Hvað er að gerast?
Eigum við að “hlýða Víði” í kjörklefanum?
,,Nú vantar bara lögreglustjórana á Suðurnesjum og Reykjavík, og ríkislögreglustjóra að auki. Og hvað með Guðna Th? Fæst hann ekki til að styðja líka? Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið.“ Segir Hallgrímur Helgason rithöfundur.
Þetta lýsir örvæntingu og dómgreindarleysi sem jafnast nánast á við það dómgreindarleysi að ætla að stökkva úr Stjórnarráðinu á Bessastaði án tilhlaups, með öllum þeim flækjum og fórnarkostnaði sem enn eru að koma í ljós. Þetta útspil lýsir líka vandanum sem slíku fylgir. Fólkið á efstu hæðinni ætlar að segja fólkinu á neðri hæðunum hvað það eigi að kjósa.
Ef ég þekki þjóð mína, þá lætur hún ekki stjórna sér til þess, þannig að út frá hagsmunum Katrínar skil ég þetta ekki heldur. Eins og ein ágæt kona sagði vel fyrir páska þegar umræðan barst að mögulegu forsetaframboði forsætisráðherra: “Í alvörunni? Er ekkert nema jáfólk í kringum hana?”