.
Samkeppniseftirlitið hefur haft möguleg brot fyrirtækjanna til samfelldrar rannsóknar
Héraðsdómur vísar frá kröfum Eimskips
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með úrskurði uppkveðnum í dag vísað frá kröfum Eimskips (Eimskipafélags Íslands hf., Eimskips Íslands ehf. og TVG Zimsen ehf.) um að úrskurðað verði að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðu samráði Eimskips og Samskipa sé ólögmæt og að henni skuli hætt. Við uppkvaðningu úrskurðarins lýsti lögmaður Eimskips því yfir að fyrirtækið hygðist taka sér frest til að ákveða hvort úrskurðurinn yrði kærður til Landsréttar.
Vegna fyrirspurna um stöðu rannsóknarinnar skal eftirfarandi tekið fram:
– Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að því hvort Eimskip og Samskip (Samskip Holding BV, Samskip hf., Landflutningar ehf. og Jónar Transport hf.) hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Í tengslum við rannsóknina gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá fyrirtækjunum 10. september 2013 og aftur hjá Eimskipi 4. júní 2014.
– Samkeppniseftirlitið hefur haft möguleg brot fyrirtækjanna til samfelldrar rannsóknar og er hún vel á veg komin. Meðal annars hefur Samkeppniseftirlitið gefið fyrirtækjunum kost á að tjá sig um ítarlegt frummat eftirlitsins og þau gögn sem það byggir á, en eftirlitið gætir andmælaréttar fyrirtækja í málum af þessu tagi með því að gefa út svokallað andmælaskjal. Verður fyrirtækjunum gefið enn frekara tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á næstunni. Er umfang rannsóknarinnar, þar á meðal undirliggjandi gagnamagn, án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi.
– Í umfjöllun um kröfur Eimskips hefur komið fram að málefni fyrirtækisins hafi verið til rannsóknar allt frá árinu 2010. Hið rétta er að umrædd rannsókn hófst með þeirri húsleit sem var sem áður segir gerð hjá Eimskipi og Samskipum 10. september 2013. Á þeim tíma hafði Samkeppniseftirlitið hins vegar haft tiltekna háttsemi á landflutningamarkaði til rannsóknar sem var þá ólokið. Við upphaf rannsóknarinnar 2013 voru tilteknir þættir þess máls sameinaðir hinu nýja máli, enda höfðu eftirlitinu borist ábendingar frá bæði viðskiptavinum og keppinautum Eimskips og Samskipa sem settu málið í nýtt samhengi.
– Á grundvelli kæra Samkeppniseftirlitsins eru ætluð brot nánar tiltekinna stjórnenda fyrirtækjanna til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara, en samkeppnislög gera ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið meti hvort ætluð samráðsbrot séu þessu eðlis að þau kalli á að stjórnendur fyrirtækja séu kærðir til lögreglu vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi. Þetta verklag er í samræmi við samkeppnislög þar sem gert er ráð fyrir samvinnu Samkeppniseftirlitsins og lögreglu í málum af þessu tagi.
Fyrir héraðsdómi krafðist Eimskips þess jafnframt að aflétt yrði haldi á gögnum sem Samkeppniseftirlitið lagði hald á við húsleitir hjá fyrirtækinu og afritum þeirra eytt. Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka fram að afrit var tekið af öllum haldlögðum gögnum strax í kjölfar húsleita og þeim skilað aftur til fyrirtækisins. Ekki er því um það að ræða að fyrirtækið hafi verið svipt aðgangi að umræddum gögnum. Eftir stendur þá fyrir héraðsdóm að leysa úr kröfu Eimskips hvort afritum gagna skuli eytt.