Félag smábátaeigenda á Austurlandi hefur lagt fram tillögu til aðalfundar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn verður 16. og 17. október nk. sem felur í sér að heimildir í þorski til byggðaaðgerða hækki úr 5,3% í 8%.
Á aðalfundi Félags smábátaeigenda á Austurlandi sem haldinn var 25. september sl. var mikið rætt um heimildir í þorski sem ráðstafað er til byggðaaðgerða. Fundarmenn voru sammála um að þær eigi að hækka, en ekki gangi að auka hlut þeirra sem hafa aflahlutdeild í þorski.
4% álag á ráðgjöf Hafró
„FSA vill hækka heimildir til byggðaaðgerða í þorski úr 5,3% hlutdeild af leyfilegum heildarafla í 8%. Aðalfundur FSA telur að með því væri hægt að tryggja línuívilnun, byggðakvóta og 48 daga til strandveiða.
Útfærslu yrði breytt þannig að helmingur kæmi með 4% í stað 5,3%. Til viðbótar kæmi 4% álag á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
FSA telur ekki réttlátt að skerða útgerðir landsins og leggur því til að þessi leið verði farin.

