Á tímabilinu júlí, ágúst og september var rekstrartap Arctic Fish 980 milljónir króna. Þetta gríðarlega tap bætist við 637 milljón króna tap fyrstu sex mánuði ársins. Samtals nemur því tap félagsins á árinu rúmlega 1,6 milljarði króna.

Samkvæmt árshlutauppgjöri Arctic Fish fyrir þriðja ársfjórðung borgaði fyrirtækið 1,21 evru með hverju kílói af eldislaxi sem það slátraði. Með öðrum orðum borgaði það 1.300 krónur með hverjum sjö kílóa eldislaxi sem var slátrað í júlí, ágúst, og september.
Eins og sagt var frá í sumar lokaði Arctic Fish starfsstöð sinni á Þingeyri þar sem störfuðu níu manns. Óþarfi er að efast um að það var gert í sparnaðarskyni.
Aldrei, frá stofnun árið 2011, greitt tekjuskatt á Íslandi
Arctic Fish hefur aldrei frá stofnun árið 2011 greitt tekjuskatt á Íslandi. Það mun ekki breytast á þessu ári né því næsta. Uppsafnað tap er svo gríðarlegt.
Sömu sögu má reyndar segja um hin sjókvíaeldisfyrirtækin sem hér starfa.
Á sama tíma mola þungaflutningar á vegum þessara fyrirtækja niður þjóðvegakerfi landsins svo af hlýst gríðarlegur tilkostnaður fyrir samfélagið allt..

