Mótmælti stjórn Samherja og eignarhaldi á Eimskip eftir að Samherjaskjölin voru birt
Samherji Holding ehf., systurfélag Samherja, jók í gær hlut sinn í Eimskipafélagi Íslands hf. um 3,05% og á nú 30,11% hlut í fyrirtækinu. Eins og lög gera áskilnað um mun Samherji Holding senda öðrum hluthöfum yfirtökutilboð innan fjögurra vikna. En þetta kemur fram í tilkynningu Samherja.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en lífeyrisjóður VR er næst stærsti hluthafi í Eimskipafélaginu hf. gagnrýndi harðlega í lok nóvember að Samherji stjórni Eimskipi þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir eigi meira en helmingshlut í fyrirtækinu. Þetta sé galin staða, sérstaklega í ljósi þess sem komið hafi fram um meinta vafasama viðskiptahætti Samherja í Namibíu. Í viðtali við Rúv kom fram að Samherji Holding ehf. á Sæból, sem á Kýpurfélögin, sem eiga Máritíus-félögin, sem aftur halda utan um Samherjastarfsemina í Namibíu, að því er fram hefur komið í tengslum við Samherjaskjölin.
Í tilkynningu Samherja í dag segir jafnframt: ,,Tilgangurinn með þessum auknu hlutafjárkaupum er fyrst og fremst að sýna í verki þá trú sem Samherji Holding hefur á rekstri Eimskips og þeim breytingum sem ráðist hefur verið í rekstri fyrirtækisins að undanförnu en áhrif þeirra eru ekki að fullu komin fram.
Eimskip byggir á traustum grunni. Fyrirtækið er elsta skipafélag landsins en rætur þess liggja til ársins 1914. Hefur það verið einn af burðarásum íslensks atvinnulífs um margra áratugaskeið.
„Eimskip er allt að einu í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem saman eiga rúmlega helming hlutafjár. Það er minn skilningur að stjórn Eimskips og stjórnendur hafi verið einhuga um þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á rekstrinum.
Samherji Holding telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð í Kauphöll Íslands og vonar að sem flestir hluthafar, stórir og smáir, sjái hag sínum best borgið með því að styðja áfram við þá uppbyggingu og fylgi félaginu um ókomin ár,“ segir Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.